Opið er inn á gossvæðið frá Suðurstrandavegi í dag en ekki frá öðrum vegum eða vegaslóðum. Slökkvistarf stendur enn yfir á svæðinu og er fólk varað við að dvelja nærri svæðinu vegna gasmengunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Greint er frá því að Meradalaleið sé opin og ganga þurfi 20 kílómetra fram og til baka, sé leiðin því ekki hentug fyrir alla og taki um fimm til sjö klukkustundir.
„Sem fyrr þá gengur ekki í öllum tilfellum vel að biðja fólk um að halda sig utan hættusvæðis. Við biðjum því fólk um að haga sér í samræmi við fyrirmæli lögreglu og björgunarsveita og fara ekki inn á merkt hættusvæði/bannsvæði,“ segir í tilkynningunni. Tekið er fram að gossvæðið geti breyst með litlum fyrirvara og reynst lífshættulegt.
„Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.“
Þá er ítrekað að fólk fari á svæðið á eigin ábyrgð en mælt er með því að nota rykgrímur til að forðast mengunina sem komi frá gróðureldunum.
„Göngumenn klæði sig eftir veðri, taki með sér nesti og gleymi ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Ekki er tryggt öryggi farsíma á svæðinu. Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar. Þeir gangi að gosstöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nestaðir. Fylgist með vindátt og fréttaflutningi.“
Þá er einnig bent á að fylgjast með eftirfarandi vefsíðum: