Staðfestir nóróveirusmit meðal gesta á Fabrikkunni

Staðfest hefur verið að nóróveirusmit hafi komið upp á Hamborgarafabrikkunni.
Staðfest hefur verið að nóróveirusmit hafi komið upp á Hamborgarafabrikkunni. mbl.is/Styrmir Kári

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir niðurstöður rannsókna staðfesta að gestir Hamborgarafabrikkunnar hafi greinst með nóróveiru.

Grunur lék á um að nóróveira hefði ollið veikindum um 100 gesta Hamborgarafabrikkunnar í síðustu viku. Fyrstu niðurstöður höfðu bent til bakteríusýkingar en nú er einnig búið að staðfesta smit af völdum nóróveiru.

„Við höfum núna bæði fundið E. coli bakteríur og nóróveirur. Það hefur enn ekki fundist neitt í matnum sjálfum en málið er enn þá í vinnslu hjá okkur. Þar að auki er ekki einu sinni ávallt víst að það takist að rekja uppruna slíkra sýkinga,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvenjulegur fjöldi

Guðrún telur óvenjulega mörg smit hafa greinst og ekki sé hægt með vissu að alhæfa um uppruna þeirra.

„Svona mörg smit eru óvenjuleg og við erum að skoða hvernig smitaðir einstaklingar tengjast sín á milli, en ekki einungis út frá staðnum sem þau gætu hafa smitast á,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert