Sumarblíðan heldur áfram að leika við íbúa Suður- og Vesturlands, fremur hlýtt verður í veðri en þykknar upp á morgun vestan til. Svalt verður í veðri norðan- og austanlands í dag og því fylgir stíf norðvestanátt við austurströndina.
Rigning eða súld er væntanleg á fimmtudag sunnan- og vestanlands og léttir til norðan- og austanlands. Hæglætisveður er væntanlegt eftir það og sólarglætu að sjá víða með stöku skúrum víðast hvar.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Fimmtudagur:
Hægviðri, skýjað og þurrt að mestu, en lítilsháttar væta sunnan- og vestanlands. Rofar til sums staðar á Norður- og Austurlandi seinnipartinn. Hiti verður 7 til 15 stig, svalast við norður- og austurströndina.
Föstudagur, laugardagur, sunnudagur og mánudagur:
Hægir vindar, skýjað með köflum eða bjartviðri og stöku skúrir, einkum síðdegis. Milt verður í veðri.