Veðurguðirnir svöruðu bænum íbúa Hrafnistu

Starfsmenn Hrafnistu klæddust litríkum sumarfatnaði í tilefni dagsins.
Starfsmenn Hrafnistu klæddust litríkum sumarfatnaði í tilefni dagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Gleðin réði ríkjum í Hafnarfirði í dag þar sem fram fór árlegt sumargrill hjúkrunarheimilisins Hrafnistu. Tæplega 400 manns sóttu grillið í blíðskaparveðri og gæddu sér á kjúklingi, grilluðu lambakjöti og meðlæti af bestu gerð. mbl.is gerði sér ferð á Hrafnistu og náði tali af viðstöddum. 

Margverðlaunuð í pútti og pílukasti

Á borði einu við miðju veislunnar klædd í glæsilega hvíta dragt, með hvíta perlufesti og bleikan hatt situr Inga Pálsdóttir, sem er hæstánægð með uppákomu dagsins. Inga flutti til Íslands frá Þýskalandi árið 1951, en hún kvæntist íslenskum manni og hefur búið hér um allar götur síðan.  

Inga Pálsdóttir tekur virkan þátt í félagslífi Hrafnistu, en hún …
Inga Pálsdóttir tekur virkan þátt í félagslífi Hrafnistu, en hún hefur unnið til fjölmargra verðlauna í bæði pílukasti og pútti. Ljósmynd/Mist Þ. Grönvold

„Sumarið er búið að vera fínt. Ég er mjög ánægð og get ekkert kvartað,“ segir Inga sem kveðst vera virkilega ánægð með matinn sem boðið er upp á í grillveislu dagsins, þá sérstaklega lambakjötið. 

Inga tekur virkan þátt í félagslífi Hrafnistu, en þar er hún margverðlaunuð í bæði pútti og pílukasti. „Maður gefst ekki upp, það þýðir ekkert,“ segir Inga loks með bros á vör. 

„Ég borða bara það sem er á borðunum“

Ingólfur Flygenring, fyrrum endurskoðandi, segir sumarið leggjast ágætlega í sig. „Sumarið hefur bara verið ágætt undanfarið, ég er búinn að gera hitt og þetta.“ Ingólfi finnst ágætt baða sig í sólinni á meðan hann bíður eftir matnum sem verið er að framreiða þegar viðtalið er tekið.

Ingólfur Flygenring lét sig ekki vanta á Sumargrill Hrafnistu í …
Ingólfur Flygenring lét sig ekki vanta á Sumargrill Hrafnistu í dag. Ljósmynd/Mist Þ. Grönvold

Spurður að því hvaða kræsingum hann sé spenntastur fyrir því að gæða sér á í grillveislunni er svar Ingólfs einfalt og hnitmiðað: „Ég borða bara það sem er á borðunum.“

Fyrsta sinn í sumargrilli

Enn bíða sumir eftir því að gæða sér á grillkjötinu í sólinni á Hrafnistu þegar blaðamann ber að garði. Meðal þeirra er Hrafnhildur Gunnarsdóttir, fyrrverandi læknaritari, en hún hefur aldrei verið við sumargrill á Hrafnistu áður. „Mér finnst þetta mjög spennandi,“ segir Hrafnhildur sem kom á Hrafnistu fyrir einu og hálfu ári síðan.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir sótti sumargrill Hrafnistu í fyrsta sinn í dag.
Hrafnhildur Gunnarsdóttir sótti sumargrill Hrafnistu í fyrsta sinn í dag. Ljósmynd/Mist Þ. Grönvold

Hrafnhildur segist njóta þess að vera úti í sólinni á sumrin, en hún hefði viljað sjá til sólarinnar oftar í sumar.

„Sumarið leggst svona ágætlega í mér þakka þér fyrir, en samt hefði það nú mátt vera betra. Ég hefði viljað geta verið meira útivið til þess að spjalla við fólk,“ segir Hrafnhildur sem nýtur þess að sitja í sólinni á meðan hún bíður eftir matnum. 

Beðið fyrir veðrinu

„Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli,“ segir Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður á Hrafnistu í Hafnarfirði aðspurð hvaða þýðingu viðburðir á borð við grillveisluna hafi fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins. „Það að gera eitthvað skemmtilegt og nýta góða veðrið þegar við getum skiptir ofboðslega miklu máli,“ bætir Árdís við.

Hún segir sumargrillið hafa fengið afar jákvæð viðbrögð á meðal íbúa sem séu þakklát og ánægð með hvernig hafi tekist til. Þá skemmi veðrið svo sannarlega ekki fyrir. 

„Því miður kemur það fyrir að við þurfum að færa hátíðina inn en við sleppum henni aldrei. Svona er bara íslenska veðurfarið en við erum einstaklega heppin í dag,“ segir Árdís sem er hæstánægð með veðurskilyrði í Hafnarfirði í dag. „Við erum búin að liggja á bæn og það tókst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert