Vill aðra leið að gosinu

Jón Einarsson, annar til hægri, og sonur hans, Einar Jónsson …
Jón Einarsson, annar til hægri, og sonur hans, Einar Jónsson þriðji til hægri, ásamt fjölskyldu. mbl.is/Hákon

„Við erum þrælvön og ég myndi ekki mæla með þessari leið fyrir alla. Þetta er svolítið til vandræða í gegnum úfið hraunið. Ég hefði viljað sjá leiðina frá Keili opnaða. Þá gætu menn komið að þessu norðanfrá án þess að anda að sér gasi. Einhverja daga var fólk á kafi í reyk í átta tíma.

Þetta segir Jón Einarsson, flugstjóri hjá Icelandair, sem lagði leið sína að gosstöðvunum í gær ásamt syni sínum Einari Jónssyni og fjölskyldu þeirra.

Ótroðnar slóðir

Jón ákvað að fara ótroðna slóð að eldgosinu í gær og gekk frá Djúpavatni austan við eldgosið við Litla-Hrút í staðinn fyrir hina hefðbundnu gönguleið frá bílastæðinu sem er í suðvesturátt frá gosstöðvunum.

Hann segir að gönguleiðin hafi verið sjö til átta kílómetra löng og þar með styttri en tekur þó fram að hún sé alls ekki fyrir alla.

„Ég er vanur að ganga hérna þvers og kruss um svæðið. Við vildum bara ekki anda að okkur gasi. Ríkisstjórnin vill að við öndum að okkur gasi en við viljum það ekki,“ segir hann og vísar til þess að reyk- og gasmengun blés í gær að mestu í vestur- og suðurátt þar sem merktu gönguleiðirnar eru.

Kíkir oft á gosið úr lofti

Jón segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hann leggur leið sína að nýja eldgosinu við Litla-Hrút en tekur þó fram að hann hafi séð fyrri tvö eldgosin á Reykjanesskaganum á sínum tíma. Hann bætir við að hann hafi séð fyrsta gosið við Fagradalsfjall tólf sinnum á sínum tíma.

Spurður hversu oft það þurfi að gjósa á Reykjanesskaganum svo að hann hætti að hafa áhuga á að koma og berja sjónarspilið augum segir Jón:

„Ég hætti ekki neitt. Ég er líka oft að kíkja á þetta úr lofti.“

Fjölsksyldan virðir fyrir sér eldgosið. Fyrir aftan þau má sjá …
Fjölsksyldan virðir fyrir sér eldgosið. Fyrir aftan þau má sjá reykin sem kom frá gróðureldunum sem voru enn viðvarandi í gær. mbl.is/Hákon

Líst vel á leiðina frá Keili

Hann segir að leiðin frá Keili gæti verið töluvert styttri og bætir við að hann sé ekki ánægður með hvernig hefur verið staðið að hlutunum hvað varðar aðgengi að gosstöðvunum.

Hann segir þetta gos ekki komast í hálfkvisti í samanburði við fyrsta eldgosið við Fagradalsfjall.

„Það var náttúrlega langflottasta gosið. Það var eins og sérhannað.“

Missti af fyrri gosum með tveimur dögum

Einar, sonur Jóns, býr í Noregi ásamt eiginkonu sinni sem er norsk og tekur fram að hann hafi misst af fyrri tveimur eldgosum. Hann bætir við að hann sé mjög ánægður að hafa náð að sjá þetta gos.

„Við erum hálfgerðir túristar. Það má segja að það hafi verið ákveðinn bónus að það hafi gosið hérna á sama tíma og ég var á landinu. Ég er búinn að bíða eftir þessu lengi. Ég missti af hinum gosunum með tveimur dögum.“

Einar segist vera svekktur að hafa misst af fyrsta eldgosinu eftir að faðir hans lýsti sjónarspilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert