Guðrún Hafsteindóttir dómsmálaráðherra segir ýmsar leiðir til að stytta gönguna að eldgosinu við Litla-Hrút. Hún leggur til að skoðað verði að nýta vegaslóða og reiðvegi sem þegar eru til staðar, ekki að leggja nýja vegi.
Tómas Guðbjartsson, læknir og fararstjóri í Ferðafélagi Íslands, skrifaði í gær færslu á Facebook-síðu sína þar sem hann varaði við því að útbúa nýja akvegi að Litla-Hrúti. Telur hann að það yrði „umhverfisslys af stærri gerðinni“.
Guðrún hefur stungið upp á að nýta Vigdísarvelli undir bílastæði. Myndi það stytta gönguna um þrettán kílómetra, en núverandi gönguleið er um tuttugu kílómetrar fram og til baka.
Í samtali við mbl.is segir Guðrún að það sé ekki á sínu valdsviði að ákveða hvort eða hvernig leiðin verði stytt og aðgengi bætt, það sé lögreglu, sveitarfélaga og landeigenda að ákveða. Hún hvetur hlutaðeigandi aðila til samtals og segir ýmsa möguleika vera fyrir hendi.
„Ég hef fengið gríðarlega mikla svörun frá fólki sem að þekkir svæðið vel. Ég nefndi í þessu sambandi Vigdísarvelli en svo eru aðrir staðir sem að aðrir hafa nefnt, þannig að ég held að það sé hægt að sækja í brunn margra hvernig hægt væri að bæta aðgengi svo að öryggi fólks sé tryggt.“
Telur Guðrún að það þurfi ekki endilega að valda umhverfinu skaða að stytta leiðina.
„Ég held að það þurfi ekki að vera vegna þess að það er búið að raska þessu svæði með margvíslegum hætti. Ég var ekki að leggja til að fara leggja nýja vegi eða eitthvað slíkt, heldur að skoða þá möguleika á þeim vegum og vegaslóðum sem fyrir eru á svæðinu.“