Fyrsta sinn lyf til að höggva á rót vandans

Jón Snædal öldrunarlæknir.
Jón Snædal öldrunarlæknir. mbl.is/Hákon Pálsson

 „Við erum búin að bíða eftir þessu í 20 ár sirkabát,“ segir Jón Snædal öldrunarlæknir í samtali við mbl.is um rannsóknir á nýjum alzheimer-lyfjum. Þeim hefur verið lýst sem ákveðnum tímamótum í baráttunni við sjúkdóminn. 

Á mánudag greindi lyfjafyrirtækið Ely Lilly frá niðurstöðum sínum á lyfinu donanemab sem benda til þess að lyfið hægi á þróun alzheimer-sjúk­dóms­ins um þriðjungi.

Alzheimer er taugahrörnunarsjúkdómur og algengasta orsök heilabilunar. Um 50 milljónir jarðarbúa þjást af sjúkdóminum sem er ein af tíu al­geng­ustu dánar­or­sök­um í vest­ræn­um lönd­um. 

Blaðamaður ræddi við Jón um sjúkdóminn og hverju nýju lyfin munu breyta fyrir alzheimer-sjúklinga er þau komast á markað. 

Þrjú sambærileg lyf 

Þrjú sambærileg lyf hafa komist lengst í prófun en það eru aducanumab, lecanemab og donanemab. Þá eru nokkur lyf til viðbótar sem hafa komist skemmra. Um er að ræða líftæknilyf sem hreinsa amyloid prótein úr heilavef en lengi hefur verið talið að uppsöfnun efnisins sé upphafsferlið í sjúkdómnum.

Aducanumab fékk bráðabrigðaskráningu í Bandaríkjunum árið 2020 þrátt fyrir gagnrýni þar sem að lyfjafyrirtækinu tókst ekki að sýna sannfærandi fram á árangur. Rannsóknirnar voru flóknar í uppbyggingu. 

Rannsóknir á lecanemab og donanemab hafa hins vegar verið mun einfaldari í uppbyggingu og auðveldara að túlka niðurstöðurnar. Í báðum tilvikum voru niðurstöðurnar býsna afgerandi tölfræðilega að sögn Jóns. 

„Svo er alltaf spurning hvernig það gagnast fólkinu í raun – einhver tölfræðilegur munur – því að hann getur verið klár án þess að það skipti fólkið í raun og veru miklu máli,“ segir hann og bætir við að niðurstöður rannsókna á lecanemab og donanemab sýni fram á þau hægi á framþróun sjúkdómsins. 

Niður­stöður benda til þess að þróun sjúk­dóms­ins sé þriðjungi hæg­ari hjá þeim sem taka lyfið, en hinum sem taka það ekki.

Jón nefnir að aðferðir og verkfærin sem voru notuð við prófun á lecanemab og donanemab voru ekki alveg þau sömu og því ekki hægt að bera þau nákvæmlega saman niðurstöðurnar. 

„En það má samt segja að þau hafi í báðum tilvikum náð markmiðum sínum,“ segir hann og bendir á að í svo stórum og flóknum rannsóknum sem þessum sé ein aðal niðurstaða og  fjórar til sex auka niðurstöður.

„Í báðum tilvikum þá náðist tölfræðilegur munur á öllum, bæði í aðal endapunktunum og auka endapunktunum. Það gerir það að verkum að þetta er afdráttarlaus niðurstaða, allavega í okkar augum.“

Skráning meiri tímamót

Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) samþykkti fulla skráningu á lecanemab 6. júlí sem Jón segir meiri tímamót en þegar verið sé að kynna niðurstöður prófanna. Þó að niðurstöður rannsókna líti vel út leiði það ekki endilega til skráningar.

Þegar lyf hefur fengið fulla skráningu er búið að samþykkja að það sé nægilega gott til þess að það komist á markað og búið að samþykkja allar forsendur að sögn Jóns.  

Donanemab er í skráningarferli hjá FDA og segir hann mjög líklegt að það nái í gegn. 

Lyfjastofnun taki mið af EMA

Öll þessi þrjú lyfjafyrirtæki hafa einungis sótt um skráningu í Bandaríkjunum til þess að byrja með. 

Jón segir ástæðuna vera að mikið mark sé tekið á skráningum FDA, auk þess er bandaríski lyfjamarkaðurinn mjög sterkur. 

Jón minnist á að um séu að ræða mjög dýr lyf og þá skipti niðurgreiðsla miklu máli. 

Tryggingafélögin í Bandaríkjunum neituðu að greiða niður aducanumab en hafa samþykkt að greiða niður lecanemab um 80%.

Spurður hvenær skráningarferli muni hefjast í Evrópu segir hann að Lyfjastofnunin Evrópu (EMA) áætli að taka lecanemab fyrir í lok þessa árs. Jón segist þykja afar líklegt að það verði jákvæð niðurstaða. Ekki hefur borist tilkynning um að sótt hafi verið um leyfi fyrir donanemab í Evrópu. 

Í framhaldinu mun Lyfjastofnun Íslands að öllum líkindum taka lyfið fyrir að fyrirmynd EMA. 

„Þeir gera sitt eigið mat að einhverju leyti og í þessu tilviki finnst mér afar líklegt að þau verði í samfloti með Norðurlöndunum.“

Jón segir að það eigi eftir að koma í ljós hvað lyfin munu kosta hérlendis en að ársskammtur sé seldur af lyfjafyrirtækjunum í Bandaríkjunum á 25 þúsund dollara, eða um 3,3 milljónir. 

„Þannig að þetta verða ansi margar milljónir per mann og svo margfaldarðu með þúsund.“

Einungis einkennalyf notuð í dag

Ef við spólum aðeins til baka, hver er staðan á lyfjagjöf gegn sjúkdóminum í dag?

„Það eru fjögur lyf á markaði við þessum sjúkdómi. Þau eru öll svokölluðu einkennalyf, þ.e.a.s. þau draga úr einkennum eins og minnisleysi og ýmsum öðrum einkennum – þó því miður ekki mjög mikið en samt nægilega mikið til þess að þau fengust skráð og hafa sýnt fram á virkni. Það fer alveg á því sama að gefa þau með þessum nýju lyfjum, það breytir engu. Þannig að þetta verður svona viðbót,“ segir Jón og bætir við að einkennalyfin hafi vissulega hjálpað fólki og dregið úr framþróun um átta til tólf mánuði. 

„Sem er náttúrulega ekkert mikið þegar upp er staðið, en það er allt annað ef þú ert farin að tala um einhver ár.“

Höggva á ferlið

En þessi nýju lyf eru ekki beinlínis lækning við alzheimer, heldur hægja á hrörnuninni?

„Já sko, þetta er í raun og veru dálítið óljóst vegna þess að í raun og veru það sem þau gera er að þau höggva svolítið af ferlinu sem að veldur sjúkdóminum. Þar af leiðandi finndist manni ekkert ólíklegt að það myndi geta haft meiri áhrif til lengdar heldur en það sem að maður er að sjá núna gerast á þessum fyrstu sex til 18 mánuðum. Það á eftir að koma í ljós.“

Jón segir að lyfin séu hugsuð fyrir tvo skilgreinda hópa. Annars vegar þá sem eru með væga heilabilun og hins vegar væga vitræna skerðingu. 

Hann segir að líklegt sé að í framtíðinni verði lyfin ekki hugsuð sem meðferð sem fólk tekur til æviloka heldur í tímabilum, þ.e.a.s. hálft ár eða heilt ár í senn. Það eigi þó eftir að koma í ljós. 

Smáblæðingar mesta áhættan

Lyfin eru þó ekki hættulaus eins og öll önnur lyf en á meðal mögulegra aukaverkanna eru bjúgmyndun og smáblæðingar í heila. 

Bjúgmyndun sést einungis í segulómun og hefur fundist hjá fimmtungi fólks sem hefur tekið lyfin. Lítill hluti fólks finnur þó fyrir einhverjum breytingum vegna bjúgmyndun. 

Jón nefnir að er fyrsta alzheimer-lyfið af þessu tagi var í prófun um aldamótin 2000 leiddi þessi bjúgmyndun til þess að lyfið var bannað.

„Menn töldu að þetta væri mjög hættuleg aukaverkun en hún er það ekki, virðist vera. Þetta gengur til baka jafnvel þó lyfjagjöfinni sé ekki hætt.“

Hann segir að bjúgmyndun sé því ekki stóra áhyggjuefnið heldur smá- eða örblæðingar í heila. 

Blæðingin er oftast um 1 mm að stærð og er ekkert óvanalegt fyrirbæri, sérstaklega ekki í eldri heilum. Flestir finna ekki fyrir neinu en líkt og með bjúgmyndunina er um fimmtungur sem fær þessar örblæðingar. 

„Örfáir hafa fengið stærri blæðingu og þetta er aðal varúðin sem við verðum að vita af. Sérstaklega þegar verið er að meta hverjir eru líklegir til þess að hafa ávinning af þessu.“

Jón segir að því munu þeir sem fá lyfin að öllum líkindum þurfa að fara í segulómun á þriggja til sex mánaða fresti. 

Heggur á rót vandans 

Spurður að lokum hvort nýju lyfin séu vissulega sá vendipunktur sem vísindasamfélagið hefur talað um segir Jón svo vera. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem að eitthvað sem að virðist höggva svolítið á rót vandans sé komið á markað. Það er náttúrulega stóra málið,“ segir öldrunarlæknirinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert