„Heilt yfir hefur fólk fylgt tilmælum“

Sumir eiga það til að fara fullnálægt gosgígnum.
Sumir eiga það til að fara fullnálægt gosgígnum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum alveg í skýjunum með það hvernig fólk er að bregðast við tilmælum núna og virða þær öryggislínur sem hafa verið dregnar hjá gosstöðvunum. Það er náttúrulega einn og einn sem fer að þvælast þarna  en heilt yfir gengur þetta rosalega vel,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Að sögn Otta fylgja langflestir þeirra sem heimsækja gosstöðvarnar fyrirmælum um öryggi. Hann telur mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir hættunni sem geti fylgt því að feta nýjar slóðir nálægt gosgígnum.

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er heilt yfir ánægður …
Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er heilt yfir ánægður með viðbrögð fólks við öryggistilmælum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru 4000 manns að gosstöðvunum í gær. Af öllum þessum fjölda þurftum við einungis að hafa afskipti af örfáum einstaklingum.

Ég held að brotið í gígnum í nótt hafi sýnt hversu hættulegt það getur verið að fara á mis við tilmæli og fara nálægt gígnum,“ bætir Otti við.

Ferðamaður­inn sem hneig niður við gosstöðvarn­ar í gær­kvöldi er lát­in. Maður­inn var á sex­tugs­aldi og bar andlát hans að vegna veik­inda, en ekki vegna slys­fara. Otti segir slík atvik reynast fólki erfið.

„Það varð andlát við gosstöðvarnar í gær, og það tekur auðvitað á fyrir alla þá sem þarna starfa að lenda í slíku. Þetta var sorgleg uppákoma sem rakin er til veikinda.

„Heilt yfir hefur fólk fylgt tilmælum okkar mjög vel en það gerir störf okkar mun þægilegri,“ bætir Otti við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert