Kærunefnd afléttir stöðvun útboðsins

Yfirlitsmynd af hluta nýja Arnarnesvegarins, framkvæmd sem sætir gagnrýni fyrir …
Yfirlitsmynd af hluta nýja Arnarnesvegarins, framkvæmd sem sætir gagnrýni fyrir kostnað, ekki síst eftir að Vegagerðin kaus að hafna lægstu tilboðum. Tölvumynd/Vegagerðin

Kærunefnd útboðsmála hefur aflétt stöðvun á gerð áformaðs samnings Vegagerðarinnar við verktakafyrirtækin Suðurverk hf. og Loftorku ehf. um lagningu Arnarnesvegar. 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

Samningsgerðin var stöðvuð í kjölfar þess að lægstbjóðendur, Óskatak ehf. og Háfell ehf. sem buðu í verkið sameiginlega, kærðu útboðið til kærunefndarinnar.

„Við erum að semja við Suðurverk og Loftorku um Arnarnesveginn, erum að bíða eftir gögnum, en klárum samninginn væntanlega í næstu viku,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Það verður gott að koma þessu verkefni af stað,“ sagði hann og bætti því við að sú töf sem orðið hefur á verkefninu vegna kærumálsins ætti ekki að fresta verklokum.

Lægstbjóðendur kærðu

Forsaga málsins er sú að lægstbjóðendur buðu mun lægri fjárhæð í verkið en sem nam kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar og var tilboðið upp á rúmar 5.432 milljónir, sem er 88,3% af áætluninni.

Vegagerðin taldi tilboð þeirra ekki standast útboðskröfur og tilkynnti að hún hygðist semja við Suðurverk og Loftorku, enda þótt tilboð þeirra í verkið væri rúmum 1,3 milljörðum króna hærra en boð Óskataks og Háfells.

Þetta kærðu lægstbjóðendur til kærunefndar útboðsmála sem komist hefur að þeirri niðurstöðu að samningsgerðin skyldi ekki stöðvuð og þar með fallist á kröfu Vegagerðarinnar um að henni sé heimilt að semja við Suðurverk og Loftorku.

Deilt um verðbætur

Í úrskurði kærunefndarinnar kemur m.a. fram að samkvæmt ársreikningum Óskataks og Háfells nemi samanlögð ársvelta þeirra u.þ.b. 1,8 milljörðum króna, en að fyrirtækin héldu því fram að þá fjárhæð ætti að verðbæta áður en hún er borin saman við þá meðalársveltu sem miðað var við í útboðinu.

Sú fjárhæð sem þar er um að ræða hefði þurft að vera tæpir 2,2 milljarðar króna til að ná tilskildu lágmarki. Í útboðinu var gerð krafa um að meðalársvelta bjóðenda væri að lágmarki 50% af fjárhæð tilboðsins í verkið síðastliðin þrjú ár, án virðisaukaskatts.

Jafnframt er því hafnað að ársveltu fyrirtækjanna hefði átt að verðbæta eins og þau gerðu kröfu um, „enda er ekkert í orðalagi útboðslýsingarinnar sem bendir til að svo hafi átt að vera,“ segir í úrskurðinum.

Ef slíkt hefði átt að gera hefði birst í útboðslýsingu nánari afmörkun þeirrar vísitölu sem styðjast hefði átt við og hvernig ætti að ákvarða hana út frá mánaðargildum vísitölunnar fyrir einstök ár.

Verkið tekur þrjú ár og eru verklok áætluð 1. ágúst 2026.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert