„Þetta hefur verið stöðugur vöxtur. Skemmdarverkin árið 2022 voru verri en öll árin samanlagt fyrir það. Þetta voru svakalega stór skemmdarverk.“
Þetta segir Ása Skúladóttir, stjarneðlisfræðingur og ein af þremur systrum sem standa fyrir nýju hlaðvarpi, í samtali við mbl.is.
Hlaðvarpið heitir „Lömbin þagna ekki“ og að sögn Ásu er markmiðið með hlaðvarpinu að varpa ljósi á hatrammar ættardeilur vegna jarðarinnar Lambeyrar í Dölum.
Deilur og árásir frá fjölskyldumeðlimum systranna á föður þeirra sem er búsettur á Lambeyrum hafa staðið yfir frá árinu 2007. Í frásögn systranna um árásirnar og deilurnar kemur meðal annarra Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, við sögu.
„Þegar lögreglan er komin er Ásmundur inni í húsinu. Það sem er svo ógnvænlegt við þetta er að hann var ekki einn. Í hlaðinu voru tveir til þrír stórir bílar og menn með honum,“ segir hún um Ásmund Einar. Meira um það neðar fréttinni.
Ekki náðist í Ásmund Einar við vinnslu fréttarinnar.
Saga systranna og ættardeilan á rætur sínar að rekja til þess þegar afi þeirra, Einar Valdimar Ólafsson, lést í nóvember árið 2007. Ósk Einars var að Lambeyrar myndu erfast jafnt á milli átta barna sinna. Skúli Einarsson, faðir systranna, var einn af þeim og einnig Daði Einarsson, faðir Ásmundar Einars Daðasonar.
Að sögn Ásu reyndi Daði ýmislegt til að sölsa undir sig landareignina á meðan afi þeirra var enn á dánarbeðinum. Á Daði að hafa gert tilraun til að fá Einar til að skrifa undir ýmsa löggerninga sem myndu tryggja Daða eignarrétt að jörðinni.
Svo fór ekki og erfðu systkinin 1/8 hluta hvert en Daði hélt áfram að búa á jörðinni þar sem hann vann við búskap.
„Daði er ekki sáttur með það. Hann vill eiga jörðina alla og veðsetur jörðina upp í rjáfur. Allir peningar sem voru til á reikningum eru látnir hverfa. Þannig að föðurarfur systkinanna verður að engu.“
Þegar jörðin var komin í gjaldþrot fór landareignin á uppboð árið 2017 en Skúli, tvær systur hans og mágur keyptu þá jörðina til að halda henni í fjölskyldunni. Síðan þá hefur Skúli staðið að rekstri jarðarinnar en að sögn Ásu hafa árásirnar farið stigvaxandi síðan þá og nefnir hún sem dæmi að tvisvar hafi Ásmundur Einar verið staðinn að innbroti í tvö hús á jörðinni.
„Daði var ekki sáttur með þessi kaup systkinanna svo honum finnst hann eiga jörðina áfram og segir öllum að hann eigi hana áfram. Hann fer með þessar lygar í alla stórfjölskylduna og alla sveitina,“ segir hún og ítrekar að hann hafi einungis átt 1/8 hluta jarðarinnar eftir að afi þeirra lést og eigi nú ekkert í jörðinni.
„Því að við vildum ekki gefa honum jörðina til baka, þá brást hann við með svakalegum skemmdarverkum og ógnunum,“ segir hún.
Spurð um hvers konar skemmdarverk hafi verið framin á Lambeyrum segir hún þau vera ýmisleg.
„Stærsta skemmdarverkið var í raun þegar vatnsveitan var eyðilögð og nú erum við að kæra það en þá neitaði lögreglan að koma. Síðan í skjóli nætur var einhvern tímann farið með plóg á tún og jörðin rifin upp svo það eru yfir tuttugu hektarar af landinu sem er ónothæfir.“
Hún segir að Ásmundur Einar hafi tvisvar verið staðinn að innbroti á jörðinni. Einu sinni þar sem lögreglan greip hann glóðvolgan án þess að aðhafast neitt.
„Það voru ummerki um nokkur innbrot áður en hann er staðinn að verki. Þegar hann var staðinn að verki var hann búinn að klippa á lásinn. Á þessum tíma áttu Daði og Ásmundur ekkert í þessu húsi. Þá sér einhver til þeirra og lætur lögregluna vita.
Þegar lögreglan er komin er Ásmundur inni í húsinu. Það sem er svo ógnvænlegt við þetta er að hann var ekki einn. Í hlaðinu voru tveir til þrír stórir bílar og menn með honum. Ásmundur hélt því fram að hann væri í flutningum og lögreglan lét það vera að hafa afskipti af honum.“
Hún segir að það hafi þá þegar verið búið að tæma húsið og Ásmundur því átt lítið erindi þangað. Hún segir að annað innbrotið hafi átt sér stað aðeins seinna og á þá Ásmundur að hafa farið inn í hlöðu á landareigninni.
„Hann kemur þarna með dráttarvél og er með vagn með sér og pabbi stendur hann að verki. Pabbi hótar að hringja á lögregluna en Ásmundur segir honum að gera það bara. Þá hringir pabbi í lögregluna og þá fer Ásmundur bara.“
Hún segir skemmdarverkin vera smáræði miðað við þá stöðugu ógn sem steðjar frá Daða og Ásmundi gagnvart fjölskyldunni.
„Það er alltaf eitthvað. Það er skemmdarverk í hverjum mánuði. Það gerir þetta erfiðara að þeir ljúga svo miklu þannig að öll stórættin heldur að við séum að kúga þessa menn en það er einmitt öfugt.“
Aðspurð segir Ása að hlaðvarpið sé gert í sátt við föður sinn.
„Við ákváðum þetta bara við þrjár. Síðan ræddi ég við pabba minn og ég bað hann um að skilja það að við þyrftum að gera þetta og að við þyrftum að gera þetta með okkar hætti.
Hann sagði þá að þetta væri líka mín saga og að hann hefði ekkert vald yfir því hvað ég gerði við mína sögu. Hann hefur haft það viðhorf síðan þá og hefur ekkert reynt að stjórna okkur.“
Hún kveðst vera mjög þakklát fyrir það hversu skilningsríkur faðir sinn sé.
Spurð hvers vegna systurnar hafi ákveðið að búa til hlaðvarp til að segja frá málinu segir hún margþættar ástæður vera fyrir því. Hún nefnir til dæmis aðgerðaleysi lögreglunnar á svæðinu og að málið sé of stórt fyrir eina grein í fjölmiðlum.
„Við erum búin að taka upp klukkutíma þátt og það er bara inngangur. Það er ekki einu sinni toppur ísjakans heldur bara inngangur. Það er mjög mikið eftir. Það sem gerir þetta svo erfitt er að lögreglan gerir ekkert.
Ef við hringjum og tilkynnum skemmdarverk segja þau bara: „Nei, við komum ekki á staðinn.“ Þó að þetta séu mjög alvarleg skemmdarverk og þeir séu staðnir að verki.“
Hún segir að hún hafi ekki séð neina aðra leið færa í málinu þar sem átökin fara stigvaxandi. Hún nefnir jafnframt að hún hræðist það hvað gerist ef deilurnar versna.
„Þetta má ekki versna, ef þetta versnar þá er eitthvað svakalegt að fara að gerast. Ég gat ekki staðið hjá lengur.“
Hún segist hafa þó nokkrar áhyggjur af því bakslagi sem muni líklega berast vegna sögu þeirra en hún ítrekar þó að þeim hafi einungis borist jákvæð viðbrögð síðan fyrsti þátturinn fór í loftið.
„Viðbrögðin voru miklu betri en við áttum von á. Við höfum ekki enn fengið viðbrögð frá fjölskyldunni. Ásmundur mun aldrei hafa samband við okkur beint. Ég geri ráð fyrir því að það sé verið að reyna að finna leiðir til að kæra okkur.“