Stefán Eysteinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi útvarpsmaður, er látinn, 51 árs að aldri. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu sunnudaginn 16. júlí sl.
Stefán fæddist 3. júní 1972, elstur fjögurra systkina. Foreldrar hans eru Soffía Helga Magnúsdóttir og Sigurður Mar Stefánsson.
Stefán lætur eftir sig eiginkonuna Maríu Lovísu Árnadóttur og tvö börn; Töru Guðrúnu, 19 ára, og Sigurð Leó, 16 ára.
Stefán var Hafnfirðingur en fjölskyldan hefur búið í Laugardalnum í Reykjavík ásamt því að eyða stórum hluta ársins í Arizona í Bandaríkjunum þar sem Stefán og María stunduðu nám í kringum aldamótin. Í framhaldi stofnuðu þau þar heimili og rekstur og fæddust börn þeirra í Bandaríkjunum.
Stefán stofnaði árið 2021, ásamt meðeigendum, fyrirtækið GynaMEDICA sem sérhæfir sig í heilsuþjónustu fyrir konur. Áður var hann fjármálastjóri Wow air, CCP Games og starfaði sem endurskoðandi í Bandaríkjunum fyrir fyrirtæki og stofnanir.
Stefán var útvarpsmaður á FM957 um langt árabil og stýrði þar hinum vinsæla þætti Rólegt og rómantískt.
Útförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju mánudaginn 31. júlí klukkan 13.