„Það voru áform uppi um að lagfæra skýlið yfir rústunum á Stöng og setja upp útsýnispall við austurenda skálans og þess vegna þurfti að fara fram fornleifarannsókn,“ segir Oddgeir Isaksen, fornleifafræðingur og verkefnastjóri hjá Minjastofnun Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Við téða rannsókn fannst bygging við austurenda skálans og er hún samtíða honum, liggur undir gjóskulaginu úr Heklugosinu árið 1104 sem talið er að hafi lagt dalinn í eyði að miklu leyti.
„Þannig að þetta staðfestir það sem var löngum talið, að hér hafi verið búseta frá því eftir 950 og fram til 1104. Hérna hafa verið miklar hamfarir, þetta hefur verið mikið sprengigos og ekki mjög búsældarlegt hér á eftir,“ segir Oddgeir.
Reiknar hann með því að þeir Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, ljúki við að grafa bygginguna upp í vikunni og í framhaldinu þurfi að meta hvernig best verði búið um hana en hann reiknar með að hún verði hluti af sýningunni sem verið hefur ferðamönnum í dalnum aðgengileg um áratugaskeið.