Knattspyrnufélagið Þróttur gagnrýnir vinnubrögð stjórnvalda í ákvörðunum útlendingamála. Vísa átti Isaac Kwateng, vallarstjóra félagsins, úr landi innan 30 daga þar sem úrskurðarnefnd útlendingamála neitaði honum um endurupptöku á umsókn sinni um alþjóðlega vernd.
Félagið sótti um endurnýjun atvinnu- og dvalarleyfis í byrjun árs, en svör bárust ekki fyrr en í gær.
„Yfirvöld telja hann nógu góðan til að nota í vinnu, en hann hefur engin réttindi og er ekki einu sinni sjúkratryggður hér þrátt fyrir að hann borgi sína skatta,“ segir María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, til skýringar á máli Isaacs.
Isaac er frá Gana en hann kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd. Hann kom upphaflega inn í Þrótt í gegnum FIFA-styrkt verkefni á vegum KSÍ, sem Þróttur tók þátt í og var þá með fótboltaæfingar fyrir flóttamenn, segir María.
Síðan hann kom fyrst á fótboltaæfingar hjá félaginu hefur hann verið ötull í sjálfboðaliðastarfi og eignast marga vini.
Í fyrra þegar vallarstjóri félagsins lét af störfum sökum aldurs fannst stjórnarmönnum tilvalið að ráða Isaac í vinnu, enda búinn að aðstoða fyrrverandi vallarstjóra mikið í sínum störfum. Hann hefur því unnið sem vallarstjóri hjá Þrótti síðastliðið ár, auk þess að spila með varaliði félagsins.
„Isaac er mikilvægur hluti af samfélagi Þróttar og við þurfum á honum að halda. Þróttur vill að einstaklingar sem hingað koma geti aðlagast samfélagi okkur og er Isaac gott dæmi um að íþróttir eru án landamæra og sameina ólíka heima,“ segir Bjarnólfur Lárusson, formaður Þróttar.
„Svo fær hann símtal og honum sagt að hann eigi að fara innan 30 daga,“ segir María. Hann hefur verið með atvinnuleyfi og dvalarleyfi sem rann út. „Ef maður sækir um innan fjögurra vikna áður en það rennur út þá á allt að vera í góðum málum,“ segir María.
Hún segir félagið hafa sótt um endurnýjun fyrir mörgum mánuðum án þess að fá nokkur svör, en samt hafi átt að senda hann úr landi.
Í gær fengust síðan þær fréttir að búið væri að framlengja tímabundið bæði dvalar- og atvinnuleyfið. María segir lögregluna þrátt fyrir það hafa heimild til þess að halda áfram að vinna að frávísuninni, samkvæmt svörum við fyrirspurnum hennar til lögreglunnar.
Meira í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.