Mjög erilsamt á bráðamóttökunni í sumar

Már Kristjánsson, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu.
Már Kristjánsson, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu. Samsett mynd

Már Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu, segir í samtali við mbl.is að mjög erilsamt hafi verið á bráðamóttöku Landspítalans í sumar. Hann segir ýmsar ástæður fyrir því og nefnir meðal annars fjölda slysa og nóróveirusýkingar sem hafi sett strik í reikninginn á Landspítalanum.

„Ég hef kannski ekki heildaryfirsýn yfir álagið á Landspítalanum en eins og þetta birtist á bráðamóttökunni þá hefur þetta verið mjög erilsamt,“ segir Már sem segir 170 til 238 sækja bráðamóttökuna á hverjum degi.

Erlendir ferðamenn á hverjum degi

Hann segir Landspítalann hafa reiknað með töluverðum fjölda í sumar vegna slysa og vísar til þess að fleiri séu á landinu vegna komu erlendra ferðamanna. Hann segir þó fjölda sýkinga og pesta koma nokkuð á óvart.

„Það eru á hverjum degi alltaf einhverjir ferðamenn sem koma. Það sem er svolítið óvænt og óvanalegt fyrir þennan árstíma er að það er búið að vera óvanalega mikið af pestum. Það hafa verið bæði öndunarfæraveirur og nóróveirusýkingar. Þessi umferðaróhöpp og frítímaslys hafa líka verið nokkuð mörg.“

Sumarleyfi hafa áhrif

Hann tekur fram að sumarleyfi hjá Landspítalanum jafnt og hjá öðrum þjónustustigum hafi áhrif á álagið yfir sumarið. 

„Það eru erfiðleikar vegna sumarleyfa annarra þjónustustiga. Líka meðal okkar starfsfólks. Það dregur úr hraða og afköstum. Það er öðruvísi álag en engu að síður fyrirsjáanlegt. Ég meina fjöldi ferðamanna er á pari við fyrir kórónuveirufaraldurinn.“

Kórónuveiran enn til vandræða

Hann segir kórónuveiruna enn valda vandræðum og að töluverður fjöldi fólks hafi sótt aðstoð til Landspítalans vegna veirunnar. 

„Það er á hverjum degi talsvert um kórónuveirutilfelli.“

Hann tekur fram að næstu tvær viku verði erfiðar fyrir Landspítalann. Eftir það kemur starfsfólk aftur úr sumarleyfum og þá fer starfsemin að ganga sinn vanagang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert