Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir Vigdísarvallaveg hafa verið opnaðan á ný en lögregla lokaði leiðinni tímabundið eftir að hóf að gjósa við Litla-Hrút. Hann mælist þó enn til þess að fólk haldi sig við afmarkaðar gönguleiðir, þar sem björgunaraðilar verði ekki með viðbúnað við veginn.
Vigdísarvallaleið er talsvert styttri en hinar leiðirnar, en er að sögn Úlfars erfiðari ganga og því ekki fyrir óreynda göngumenn.
Hann segir fólk því vera á eigin ábyrgð á svæðinu, en lögregla muni fylgjast með hvernig gangi eftir opnunina og sjá til hvort veginum verði áfram haldið opnum.
„Við ætlum að sjá hvernig þetta reynist, en við erum ekki með neitt viðbragð inni á þessu svæði,“ segir Úlfar og bætir við að mælst sé til þess að fólk haldi sig við afmarkaðar gönguleiðir, þótt þær séu lengri. Meradalaleiðin sé til að mynda löng, en mjög örugg og lítið um að fólk slasi sig þar.
„Þetta er náttúrlega stórt svæði, svo þú ert alltaf miklu öruggari á þessum skilgreindu gönguleiðum þar sem björgunarsveit og lögregla eru.“
Hér fyrir neðan má sjá kort yfir gönguleiðir, þar sem björgunaraðilar eru í viðbragðsstöðu.