Telja Hreyfil brotlegan gegn samkeppnislögum

Heimilt er að beita Hreyfil sektum, láti fyrirtækið ekki af …
Heimilt er að beita Hreyfil sektum, láti fyrirtækið ekki af háttseminni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkeppniseftirlitið (SKE) telur Hreyfil sennilega brjóta gegn samkeppnislögum með því að banna leigubílstjórum, sem keyra fyrir Hreyfil, að keyra einnig fyrir aðrar leigubifreiðastöðvar, svo sem Hopp.

Eftirlitið birti í dag bráðabirgðaákvörðun sína þessa efnis og beindi tilmælum til Hreyfils að láta af háttseminni, sem bryti líklega gegn 11. gr. samkeppnislaga. 

Gætu átt von á sektum

Í bráðabirgðaákvörðunum er þó ekki lagt endanlegt mat á hvort háttsemi brjóti gegn lögum en SKE er heimilt að beita Hreyfil sektum verði fyrirmælunum ekki fylgt fyrir 31. desember. 

Þá segir í tilkynningu á vef SKE:

„Frá því að Hopp hóf starfsemi hefur Hreyfill komið í veg fyrir að leigubifreiðastjórar sem keyra fyrir Hreyfil nýti sér þjónustu Hopp. Þá útilokuðu einnig reglur í samþykktum og stöðvarreglum Hreyfils félagsmenn frá því að nýta sér aðra þjónustu á markaði, sem þeim stæði til boða.“

Þess krafist að Hreyfill gefi út formlega tilkynningu

Í bráðabirgðaákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Hreyfils að láta af háttsemi sinni gagnvart Hopp án tafar, ásamt því að gera nauðsynlegar breytingar á reglum og samþykktum félagsins sem banna eða hamla því að leigubifreiðastjórar sem keyra fyrir Hreyfil nýti sér jafnframt þjónustu annarra aðila.

Þá skuli Hreyfill gefa út formlega tilkynningu til leigubifreiðastjóra sem nýta sér þjónustu félagsins þar sem upplýst er um bráðabirgðaákvörðunina og að leigubifreiðastjórum sé frjálst að nýta sér jafnframt þjónustu annarra aðila kjósi þeir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert