„Þurfum að skoða stöðuna upp á nýtt“

Myndir af gígnum fyrir hádegi í dag.
Myndir af gígnum fyrir hádegi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurfum aðeins að skoða stöðuna upp á nýtt,“ segir Hörn Hrafnsdóttir vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís, sem vinnur að gerð spálíkans um hraunflæði eldgossins við Litla-Hrút.

Gígurinn við Litla-Hrút brast í gær og þarf því að endurmeta stöðuna. Spurð hvort það hafi komið henni á óvart segir hún:

„Það sem kom mest á óvart var hvað þetta hélst stöðugt. Það kom líka á óvart var hvað líkanið hélt ótrúlega lengi. Maður bjóst við því að þetta myndi vera í lagi fyrstu dagana en síðan myndi gígurinn fara að haga sér öðruvísi. En að að barmur gígsins hafi brostið kom okkur ekki á óvart.“

Hörn Hrafnsdóttir, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís.
Hörn Hrafnsdóttir, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís. Ljósmynd/Aðsend

Hátt flækjustig 

Flækjustigið er hátt þessa stundina og því fleiri en ein hermun á sama hraunlíkaninu í gangi.

„Við erum með tvær nýjar hermanir og maður veit ekki hvað er líklegast,“ segir hún en á myndavélum virðist hraunflæði vera að hoppa aftur í gömlu hraunrásina.  

„Við tökum nokkrar hermanir ofan á sama líkanið þannig séð og það eru mismunandi breytur sem við erum að nota. Það eru margar stærðir undir og engin ein aðferð 100% rétt,“ segir hún í lokin og bætir við að nú þurfi að bíða átekta.

Hraun flæðir sem stendur í suðurátt sem hentar innviðum vel eins og er.

„Við vonum að suðuráttin haldist. Það er mikil vinna í gangi við að meta hvað beri að gera ef þetta fer langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert