Erlendur Jónsson, kennari, rithöfundur og bókmenntagagnrýnandi, lést á Landakoti 17. júlí síðastliðinn, 94 ára að aldri.
Erlendur fæddist 8. apríl 1929 á Geithóli í V-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Stefanía Guðmundína Guðmundsdóttir ljósmóðir og Jón Ásmundsson bóndi.
Erlendur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1950. Hann lauk BA-prófi í íslensku og mannkynssögu, auk uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1953. Þá stundaði Erlendur nám í enskum og amerískum samtímabókmenntum við Háskólann í Bristol á Englandi 1965-1966.
Erlendur var bókmenntagagnrýnandi á Morgunblaðinu í ríflega 40 ár, eða frá 1963 til 2007. Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, síðar Vörðuskóla, á árunum 1953-1980 og færði sig þá yfir í Iðnskólann í Reykjavík og kenndi þar til ársins 1999.
Erlendur var formaður Félags háskólamenntaðra kennara um tveggja ára skeið og sat í stjórn Bandalags háskólamanna 1965-1970, fyrst sem ritari og síðar varaformaður. Þá var hann í stjórn Félags íslenskra rithöfunda 1972-1974 og fljótlega eftir það tók hann þátt í undirbúningi að sameiningu rithöfundafélaga og endurskipulagningu Rithöfundasambands Íslands.
Eftir Erlend liggja fjölmörg ritverk; fræðibækur, ljóð og smásögur. Hann samdi jafnframt nokkur útvarpsleikrit, m.a. Minningar úr Skuggahverfi, sem hann fékk verðlaun fyrir í leikritasamkeppni RÚV árið 1986.
Erlendur gaf út endurminningabók sína, Svipmót og manngerð, árið 1993, en þar sagði hann m.a. frá kynnum sínum af höfundum, útgefendum og öðrum sem létu að sér kveða í menningarlífi þjóðarinnar á seinni hluta 20. aldar. Þar koma við sögu menn eins og Guðmundur G. Hagalín, Kristmann Guðmundsson og Þórbergur Þórðarson.
Eftirlifandi eiginkona Erlendar er Marta Ágústsdóttir, f. 1928, lengi starfsmaður Félagsmálastofnunar Reykjavíkur.
Morgunblaðið þakkar Erlendi langa samfylgd og sendir aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.