„Fjörutíu prósent kvenna eru beittar ofbeldi á Íslandi og þess vegna þurfum við Druslugönguna,“ segir Tanja Ísfjörð, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar á Sauðárkróki sem haldin verður í annað sinn á laugardaginn. Druslugangan fer einnig fram í Reykjavík um helgina, en þar verður hún gengin í 13. skipti.
Að sögn Tönju er tilgangur Druslugöngunnar að sameina þolendur kynferðisofbeldis og að gefa þeim pláss.
„Við viljum skapa þolendavænt rými þar sem hægt er að skila skömminni. Auk þess viljum við leyfa þolendum að upplifa virðingu og skilning, að þeir sjái að þeim sé trúað og að það fari ekki á milli mála að undir engum kringumstæðum sé í lagi að drusluskamma.“
Á laugardaginn stendur Tanja fyrir Druslugöngunni á Sauðárkróki í annað sinn, en málstaður göngunnar hefur henni lengi verið mjög hugleikinn.
„Ég er sjálf þolandi kynferðisofbeldis og hef verið drusluskömmuð frá því ég var 14 ára, löngu áður en ég var farin að pæla í strákum,“ segir Tanja.
„Ég var lögð i kynferðislegt einelti af því að ég fékk brjóst og rass mjög ung og frá því þróaðist einhver druslustimpill á mig sem var erfitt að losna við. Þegar ég kærði síðan kynferðisofbeldið sem ég varð fyrir var þessi gamli stimpill notaður gegn mér.
Í kjölfar þess að brotið var á mér ákvað ég að ég myndi gera allt sem mínu valdi stæði til að aðrir þolendur þyrftu ekki að upplifa þann hrylling sem ég upplifði“, segir Tanja.
Hún segist hafa helgað lífi sínu baráttunni allar götur síðan, en hún átti frumkvæði að Druslugöngunni á Sauðárkróki sem gengin var í fyrsta sinn síðasta sumar.
„Ég kærði lögreglumann á Sauðárkróki fyrir kynferðisbrot og varð í kjölfarið fyrir mikilli útskúfun, drusluskömmun og viðbjóði,“ segir Tanja.
„Ég hef í langan tíma upplifað höfnun og þurft að heyra ljótar sögur um sjálfa mig. Eftir að ég heyrði að fleiri þolendur á Sauðárkróki hefðu upplifað slíkt hið sama ákvað ég að nú væri komið nóg af gerendameðvirkni og þöggun.“
Tanja sat ekki aðgerðalaus og efndi til fyrstu Druslugöngu Sauðárkróks í fyrra, en með göngunni vildi Tanja skila sinni skömminni. Hún segir það hafa verið valdeflandi en erfitt.
„Þetta var mjög valdeflandi. Ég hafði reynt að halda andliti allan daginn en þegar Hulda [Hulda Hrund Guðrúnar Sigmundsdóttir, stjórnarkona í Öfgum og aðgerðasinni] stoppaði og fékk alla gönguna til að hrópa „áfram Tanja” þá missti ég það. Öll gangan tók undir með henni og ég held þetta hafi verið eitt mest valdeflandi augnablik sem ég hef upplifað fyrir utan fæðingu barnanna minna.
Mér hefur ekki fundist ég vera samþykkt á Sauðárkróki síðan ég varð fyrir útskúfuninni, en þarna fannst mér ég aftur mega taka pláss í samfélaginu sem ég hef verið hluti af síðan ég var 10 ára gömul," segir Tanja sem er þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur upplifað í kjölfar framtaksins.
Þrátt fyrir stuðning margra innan bæjarfélagsins segir Tanja gönguna þó hafa orkað tvímælis. Þá séu sumir íbúar spenntir fyrir göngunni á meðan aðrir neiti alfarið að taka þátt.
„Það er sorglegt því það er svo mikilvægt að Sauðkrækingar taki saman höndum og standi með þolendum í ljósi þess hversu margir þolendur frá Sauðárkróki stigið fram. Það er samt gleðilegt að sjá hvað mörg fyrirtæki þorðu að taka af skarið og styðja okkur opinberlega. Einhverstaðar þarf að byrja og eftir það fer boltinn að rúlla,“ segir Tanja.
Druslugangan á Sauðárkróki hefst klukkan 13:00 laugardaginn 22.júlí á bílastæðinu við Árskóla og verður gengið af stað klukkan 13:30 að bakaríinu þar sem ræðuhöld taka við.
Í Reykjavík verður lagt af stað í Druslugönguna klukkan 14:00 frá Hallgrímskirkju. Þaðan verður gengið niður á Austurvöll þar sem efnt verður til samstöðufundar með ræðuhöldum og tónlistarflutningi.