Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir skjálftahrinuna nú við Skjaldbreið ætti ekki að lesast sem merki um frekari kvikuvirkni. Slíkar hrinur hafi komið reglulega svo lengi sem menn muni.
Um sé að ræða skjálftavirkni í þeirri grein flekaskilanna sem liggur í gegnum Þingvelli og upp í Langjökul. Þau séu virk en deyjandi og hafi í raun sýnt mjög takmarkaða virkni síðustu þrjár milljónir ára.
Þróunin síðustu þrjár milljónir ára séu hins vegar á flekaskilum sem liggja austan Heklu (Veiðivötn, Laki, Eldgjá og víðar) og sé sú grein að taka við þeirri sem liggi um Þingvelli.
„Milli greinanna tveggja liggur fleki, sem nefndur er Hreppaflekinn. Hann byrjaði upphaflega sem hluti af Evrasíuflekanum en klofnaði síðan frá og límist nú fastur á Norður-Ameríkuflekann.“
Páll segist enn ekki sjá nein merki þess að eldsumbrot á Reykjanesskaga séu að hafa áhrif á önnur eldsstöðvakerfi.
„Enn sem komið er virðist sá þröskuldur halda sem er við Kleifarvatn. Enn sem komið er hefur virknin ekki farið austur fyrir það. Það er vissulega ein af sviðsmyndunum að það fari yfir í Brennisteinsfjallakerfið og hugsanlega jafnvel Hengilinn.“
Skjálftahrinan núna eigi því ekki að skoðast í því samhengi. „Það er sem sagt enn þá skjálftavirkni á þessu vestara belti. Þetta er merki um hana og ekki merki um neina nýja virkni,“ segir Páll að lokum.