„Skjaldbreið er allt annað kerfi en það er náttúrulega ekkert því til fyrirstöðu að þar gerist eitthvað, síðast þegar Reykjaneseldar voru gaus líka í vesturgosbeltunum og á Snæfellsnesi,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið um skjálftahrinu við Skjaldbreið í gær, þar af einn skjálfta upp á þrjú stig.
Segir hann meiri líkur á að vesturgosbeltið sé tengt svæðinu kringum Skjaldbreið, það sé endir Reykjaneshryggjar til norðurs.
„Þegar eru svona ákveðnar hrinur á einum stað er það yfirleitt einhver kvika sem er að troða sér og það er í öllum gosbeltunum. Þetta er eðlilegt því við erum að færa skorpuna í sundur um tvo sentimetra á ári, þarna myndast gat og þarf alltaf að fylla í það,“ útskýrir Ármann.
„Gliðnunin á sér stað á Reykjaneshryggjarkerfinu, Íslandsgosbeltinu og Kolbeinseyjarhryggnum en Íslandsgosbeltið og Reykjaneshryggurinn þurfa að deila með sér gliðnuninni,“ segir Ármann að lokum.