Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir vel ganga hjá flestum ferðalöngum upp að gosstöðvum.
Hann telur að upplýsingar um hvernig er best að haga sér á svæðinu hafi augljóslega náð til fólks og flestra erlendra ferðamanna líka.
Hann segir fólk eiga að gera ráð fyrir fjórum til fimm klukkutímum frá því að það fer frá bíl þar til það kemur að honum aftur. Því sé mikilvægt að vera vel nestaður og hafa með sér nægan vökva til drykkjar. Fólk er gjarnan vant því á göngum um Ísland að hægt sé að fylla á vatnsbrúsa í rennandi læk. Hér sé engu slíku að fagna, enda farið yfir algerar vatnsleysur.
Eins sé gott að vera í góðum skóm og helst tvennum sokkum. Borið hefur nokkuð á hælsærum og öðrum núningssárum á fæti. Tvennir sokkar geta dregið töluvert úr líkum á því. Sömuleiðis sé gott að smella hælsærisplástrum í bakpokann. „Hann vigtar ekki mikið, en þú munt elska hann þegar þú þarft á honum að halda.“
Hvorki Jón Þór né Úlfar Lúðvíkssson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hafa haft spurnir af því að fólk hafi orðið meint af mengun á gosstöðvum. Jón Þór telur það vel kynnt meðal almennings að fólk sem sé veikt fyrir eigi ekki erindi upp að gosstöðvum.
Jón Þór er kátur með það að fólk haldi sig að mestu við hefðbundna gönguleið og sé ekki að klöngra erfiðari stíga. Gönguleiðin sé sannarlega löng en þægileg, þar sem hún er að mestu aflíðandi. Þar sem hún þræðir slóða en ekki úfið hraun þá eru ekki líkur á því að fólk slasi sig á því að stíga í sprungur og annað slíkt.
Jón Þór segir hegðun fólks almennt til fyrirmyndar þó einstaka fari ógætilega. Komi það oft til af þekkingarleysi á þeim hættum sem þar er að finna. Hafa þurfi afskipti af fólki sem annað hvort fer of nærri hrauninu eða jafnvel hætti sér út á nýtt hraun. Flestir bregðist vel við þegar þeim er bent á þær hættur sem þar kraumi undir.