Manndrápsmálið í Hafnarfirði þingfest

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari kveður aðalmeðferð málsins fara fram í …
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari kveður aðalmeðferð málsins fara fram í október ef að líkum lætur, enn sé gagnaöflun ólokið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er búið að þingfesta málið en þar sem þetta er lokað þinghald get ég ekki sagt þér hver afstaða ákærðu er í málinu,“ segir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is um lokaða þingfestingu í manndrápsmáli í Hafnarfirði í hverju fjögur ungmenni eru ákærð.

Þrír af fjórum ákærðu eru undir 18 ára aldri en í málinu eru þrír ungir menn ákærðir fyrir að verða pólskum karlmanni að bana á bifreiðastæði við verslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl. Var fórnarlambið úrskurðað látið á vettvangi og hefur málið vakið nokkurn óhug.

Margir verjendur og réttargæslumenn

„Aðalmeðferð í þessu máli fer líklega fram í október, þetta er smá púsluspil, þarna eru náttúrulega margir verjendur og réttargæslumenn,“ segir Karl og bætir því við að gagnaöflun í málinu sé ólokið en stefnt sé á að ljúka henni í ágúst.

„Núna vorum við að kynna þeim ákæruna, þarna er þremur gefið manndráp að sök og einni brot á hjálparskyldu eins og það er kallað. Svo þegar við flytjum málið þá leggjum við til einhverja ákveðna refsingu,“ heldur saksóknari áfram, spurður út í refsikröfur ákæruvaldsins.

RÚV hefur það eftir Jónasi Jóhannssyni dómara að réttarhöldin í málinu, þegar þar að kemur, verði einnig lokuð að kröfu foreldra þeirra þriggja, sem ákærðir eru fyrir manndráp, og eru enn börn að lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert