Segja Reykjavíkurborg skilja út undan

Berglind og Baldvin óttast að dóttir þeirra muni standa höllum …
Berglind og Baldvin óttast að dóttir þeirra muni standa höllum fæti við upphaf skólagöngu sinnar vegna mismununar barna í aðlögunarverkefni. Samsett mynd

Berglind Hermannsdóttir og Baldvin Logi Einarsson, foreldrar í Reykjavík, telja borgina mismuna hópi barna, sem var synjað um þátttöku í aðlögunarverkefni borgarinnar fyrir börn sem hefja skólagöngu í haust. Dóttir Berglindar og Baldvins hefur skólagöngu í Rimaskóla en þar sem hún kemur af leikskóla utan hverfisins hefur henni verið synjað um þátttöku.

Í samtali við mbl.is segir Berglind þau hjónin óttast að dóttir þeirra, og börn í sömu sporum, muni standa höllum fæti þegar skólaganga hefst og verði á byrjunarreit á meðan hin börnin hafi fengið tækifæri til að aðlagast.

Verkefnið snýr að aðlögun barna sem ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu í ár, en börnin sækja skóla og frístundaheimili frá sumarlokun leikskóla fram að skólasetningu. Er það markmið verkefnisins að gera aðlögun í grunnskóla sem farsælasta fyrir börnin. 

Á skjön við markmið verkefnisins

Í skriflegu svari frá frístundaheimilinu Norðurmiðstöð í Rimaskóla var Berglindi og Baldvini tjáð að dóttir þeirra fengi ekki pláss í aðlögunarverkefni skólans.

„Ákvörðunin byggir á mönnun og því að þeim börnum var sagt upp plássi sínu og eiga ekki aðgang að leikskóla á þeim tíma sem tilraunin verður.”

Telja þau Berglind og Baldvin synjun barna á leikskólum utan hverfisins vera á skjön við markmið verkefnisins, en í skýrslu starfshóps sem kom að verkefninu kemur m.a. fram:

„Mikilvægt er líka að hafa í huga að börn í leikskólum fara í mismunandi grunnskóla og frístundaheimili og þau börn sem ekki hafa verið í sínum hverfisleikskóla fá nú tækifæri á að kynnast væntanlegum skólafélögum í gegnum leik og óformlegt nám áður en hið eiginlega grunnskólastarf hefst.“

Hæpin rök

Þá benda þau einnig á að rök svarsins séu hæpin þar sem ákvörðunin um að segja börnunum upp leikskólaplássi er hluti af verkefninu sem um ræðir. Skóla- og frístundasvið hafi ákveðið að segja upp leikskólaplássum barnanna og bjóða þeim í staðinn þátttöku í sumarfrístundinni. 

Berglind segir mönnunarvanda einnig útfærsluatriði á ábyrgð sveitarfélagsins en ekki eitthvað sem sé réttlætanlegt að mismuna sumum börnum út frá. Hún bætir einnig við að hún hafi rætt við móður annars barns í skólanum, en sú móðir hafi fengið upphringingu þar sem hún var hvött til að skrá barnið í aðlögun. 

Vantar ekki geymslustað fyrir dótturina

Berglind segir fátt um svör frá borginni og skóla- og frístundasviði, en að hún hafi loks fengið svar frá einhverjum af skrifstofunni. Þar hafi henni verið bent á að svona væri þetta bara en að hún gæti kært ákvörðunina. Berglind segir það þó enga lausn enda væri skólaganga dóttur hennar eflaust löngu hafin þegar yrði úrskurðað í málinu. 

Var henni þá einnig bent á að skrá dótturina á sumarnámskeið, en Berglind segir þá uppástungu sýna að borgin og frístundaheimilið skilji ekki um hvað málið snýst. 

„Mig vantar ekki geymslustað fyrir hana, mig vantar bara þessa aðlögun.“

Óljóst hversu mörg börn fá ekki að taka þátt

Berglind kveðst hafa spurt starfsmann Skóla- og frístundasviðs um hversu mörg börn ræði, sem ekki fá að taka þátt í aðlögunarverkefninu vegna staðsetningar leikskóla þeirra. 

„Síðast þegar ég vissi voru 51 barn skráð í þennan árgang í Rimaskóla. Venjulega öll síðustu ár hafa verið um 4-5 börn sem koma af leikskóla utan hverfis. Hins vegar fæ ég þær upplýsingar frá Skóla- og frístundasviði að það séu 14 börn núna í ár,“ segir Berglind.

Berglind spurði þá hvort um væri að 14 börn alls, úr þeim þremur skólum sem taka þátt í verkefninu, Breiðholtsskóla, Rimaskóla og Norðlingaholtsskóla, en starfsmaðurinn kvaðst ekki hafa upplýsingar um það.

Hafa misst sjónar á markmiðinu

Berglindi þykir Skóla- og frístundasvið einblína á vitlaus atriði og gleyma um hvað málið snýst: Að aðlaga börnin að skólanum. Verkefnið sé frábært að hennar mati og hafi verið sett af stað meðal annars fyrir börn eins og dóttur hennar til þess að kynnast nýjum skóla og skólafélögum, í nýju hverfi.

Einhvers staðar hafi þau börn hins vegar helst úr lestinni og eigi ekki rétt á að taka þátt lengur. Í staðinn einblíni skólinn og sveitarfélagið á útfærsluatriði. 

„Þau eru að einblína á að þetta er samstarfsverkefni sem að þessir leikskólar eru að taka þátt í. Hún er ekki á einum af þessum leikskólum og þá á hún ekki rétt. En þetta er samt grunnskólinn hennar og frístundin hennar. Þetta eru þrír aðilar sem koma að þessu verkefni,“ segir Berglind og bætir við „einhvers staðar hefur þetta skolast til og þau misst sjónar á markmiðinu.“ 

Ekki náðist í Helga Grímsson, sviðsstjóra Skóla- og frístundasviðs við gerð þessarar fréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert