Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir fjölskyldudeilur sem hafa verið í opinberri umræðu á síðustu dögum vera honum með öllu óviðkomandi. Um er að ræða erfðadeilu innan systkinahóps föður hans eftir fráfall afa hans árið 2007.
Fjallað er um fjölskylduerjurnar í hlaðvarpinu Lömbin þagna ekki. Að baki hlaðvarpinu standa þrjár systur en mbl.is ræddi við eina þeirra fyrr í vikunni, Ásu Skúladóttur.
Deilurnar snúast um jörðina Lambeyrar í Dölum. Í frásögn systranna um árásirnar og deilurnar kemur Ásmundur Einar meðal annarra við sögu.
„Þegar lögreglan er komin er Ásmundur inni í húsinu. Það sem er svo ógnvænlegt við þetta er að hann var ekki einn. Í hlaðinu voru tveir til þrír stórir bílar og menn með honum,“ sagði Ása um Ásmund í samtali við mbl.is.
Hvorki Ásmundur né Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hafa látið ná í sig í vikunni vegna ásakana systranna.
Ásmundur segir í tilkynningu nú síðdegis að hann hafi í upphafi deilnanna tekið einarða afstöðu með föður sínum.
„Engu að síður er langt síðan mér var það ljóst að nærvera mín í þessum ágreiningi gerði hvorki mér, fjölskyldu minni, né öðrum nokkurt gagn. Þess vegna steig ég út úr þessum átökum í eitt skipti fyrir öll fyrir mörgum árum síðan og mun ekki tjá mig um málið á öðrum vettvangi en þeim sem þar til bærir opinberir aðilar kunna mögulega að leita eftir. Ég á mér fyrst og fremst þá einlægu von að þessum fjölskylduharmleik ljúki sem allra fyrst,“ segir Ásmundur.
Í tilkynningunni segist hann ekki ætla að glæða þá elda sem nú sé reynt að kveikja með útskýringum né heldur með því að bera af sér endurteknar rangar sakagiftir. Segist hann vilja vekja athygli á þeirri staðreynd að hann hafi aldrei verið ákærður fyrir ólögmætt athæfi vegna þessara deilna né yfirheyrður vegna málsatvika.
Fréttin hefur verið uppfærð