Blá gosmóða nær yfir á Vestfirði

Mikil gosmóða liggur yfir Ísafjarðardjúpi.
Mikil gosmóða liggur yfir Ísafjarðardjúpi. Ljósmynd/Aðsend

Bláa gosmóðu leggur alla leið frá gosstöðvunum á Reykjanesskaga á Vestfirði. Þetta staðfestir Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Við fengum staðfestingu á því í gærkvöldi að gosmóðan væri komin norður af Snæfellsnesi í gær. Miðað við vinddreifingu passar vel að hún sé kominn á Vestfirði núna.“

mbl.is hefur fengið ábendingar víða að á Vestfjörðunum um að gosmóða sé greinileg. Þá var einn blaðamaður Morgunblaðsins í siglingu um Breiðafjörð á leið út í Flatey og sagði skyggni ekki vera nema 2 til 3 kílómetra.

Fjallið Hestur séð frá minni Skötufjarðar í Ísafjarðardjúpi.
Fjallið Hestur séð frá minni Skötufjarðar í Ísafjarðardjúpi. Ljósmynd/Sigþór Sigurðson

Eykst með hverjum klukkutímanum

Ragnhildur Sævarsdóttir sem stödd var vestur í Dýrafirði segir skyggni vera lítið vegna móðunnar. „Það er blá gosmóða yfir öllu. Við finnum ekkert fyrir þessu en það er rosalega lítið skyggni. Við tókum eftir því að það var farin að myndast örlítil móða í gærkvöldi og þetta er búið að aukast mikið núna, eykst í rauninni með hverjum klukkutímanum.“

Að sögn Magnúsar má búast við því að gosmóða þéttist á Suður- og Vesturlandi vegna vindáttar í kvöld og nótt, svo sem á höfuðborgarsvæðinu og meðfram Vesturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert