Gasmengunin gæti farið og komið aftur

Gömul gasmengun frá gosinu við Litla-Hrút hrelldi íbúa höfuðborgarsvæðisins í …
Gömul gasmengun frá gosinu við Litla-Hrút hrelldi íbúa höfuðborgarsvæðisins í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Í gær var suðaustanátt 3-8 metrar á sekúndu og barst því gasmengun frá gosstöðvunum við Litla-Hrút til norðvesturs í átt að Vogum, Garði og Reykjanesbæ.

Gasmengun sem er yfir Suður- og Vesturlandi og jafnvel víðar á landinu er gömul. Að sögn veðurfræðings Veðurstofu Íslands er erfitt að segja til um hvenær mengunin hættir að hrella íbúa á suðvesturhorninu, hún geti færst í burtu og komið aftur.

Seint í dag verður norðvestanátt 3-8 m/s við gosstöðvarnar og blæs þá gasinu til suðausturs, að því er segir í gasdreifingarspá Veðurstofunnar.

Væta norðanlands

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að hæglætisveður og milt verði um helgina.

Í dag verði smá væta norðanlands og sums staðar skúrir síðdegis í öðrum landshlutum. Á morgun er spáð súld eða dálítilli rigningu víða um land.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert