Snædís Björnsdóttir
Hópur fólks óhlýðnaðist fyrirmælum lögreglu við gosstöðvarnar í nótt þegar það neitaði að yfirgefa hættusvæði.
Var fólkið uppi á fjallshrygg sem hraun rann sitthvorum megin við. Átti það á hættu að lenda í sjálfsheldu. Hátt í 60 manns voru staddir á fjallshryggnum sem hraunið rann meðfram.
Frá þessu segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
„Fólk var komið upp á þennan fjallshrygg sem hraun var tekið að renna báðum megin við. Það var áhyggjuefni að hraunið myndi renna saman og fólk þar með lokast inni.“
Jón Þór segir að margir hafi líklega ekki áttað sig á hættunni. Dræmlega hafi verið tekið í aðvaranir og tilskipanir lögreglu, sem meðal annars beitti gjallarhorni.
„Það virtist þurfa talsvert til við að ná fólki þarna niður. Ég get ekki séð að fólk hafi áttað sig á hættunni sem það var í.“
20 björgunarsveitarmenn voru á vakt á svæðinu í gærkvöldi og fram á nótt. Sex lögreglumenn voru þar við gæslustörf.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur tilkynnt að lokað verði fyrir gönguleiðir að gosstöðvunum í kvöld. Er það sökum þess hve erfiðlega gekk að hafa stjórn á fólki í gærkvöldi.
„Nú sem oft áður er það tiltölulega fámennur hópur sem skemmir fyrir öllum hinum,“ segir í tilkynningu lögreglu.