Ótrúleg upplifun malavískra drengja á Íslandi

Lið malavísku knattspyrnuakademíunnar Ascent er mætt til landsins. Liðið er …
Lið malavísku knattspyrnuakademíunnar Ascent er mætt til landsins. Liðið er skipað ungum og efnilegum knattspyrnumönnum sem margir hverjir hafa þurft að glíma við mikla fátækt. Ljósmynd/Aðsend

Á fimmtudaginn lentu 16 ungir og efnilegir knattspyrnumenn frá Malaví á Keflavíkurflugvelli, en þeir eru komnir hingað til lands til þess að taka þátt í Rey Cup sem fram fer í næstu viku.

Drengirnir spila með liði knattspyrnuakademíunnar Ascent Soccer, en margir þeirra ólust upp án rennandi vatns og rafmagns.

Í hópi Ascent Soccer er að finna drengi sem alist hafa upp við fátækt sem margir Íslendingar eiga erfitt að gera sér í hugarlund. Um helmingur þeirra ólst upp á heimilum þar sem ekki var aðgangur að rennandi vatni eða rafmagni, 10% voru ekki í skóla áður en þeir gengu til liðs við akademíuna og voru 28% ólæsir þegar í akademíuna var komið.  

Frá Malaví til Mosfellsbæjar 

Nú eru drengirnir hins vegar staddir á Íslandi og hafa þeir nú þegar opnað markareikninginn, en í gær spiluðu þeir æfingaleik við þriðja flokk karla Aftureldingar á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Þá eiga þeir leik við Víking á þriðjudaginn áður en flautað verður til leiks í Laugardal á fimmtudaginn.  

Vel fór á milli drengjanna í Ascent og 3.flokki Aftureldingar …
Vel fór á milli drengjanna í Ascent og 3.flokki Aftureldingar er liðin mættust í Mosfellsbæ í gær. Ljósmynd/Aðsend

Ástæðu þess að malavísku drengirnir eru nú staddir hinum megin á hnettinum og munu reima á sig takkaskóna á nýslegnu grasi í Laugardalnum má rekja til hugmyndar sem kviknaði hjá Jóhanni Braga Fjalldal og Sigurði Þráni Geirssyni, Íslendingum og knattspyrnuáhugamönnum sem búsettir eru í Malaví.  

Helmingur drengjanna ekki með passa

„Forsagan er sú að það búa nokkrar íslenskar fjölskyldur í Malaví, en Ísland hefur stundað þróunarsamvinnu í Malaví á vegum utanríkisráðuneytisins um nokkurt skeið,“ segir Bragi sem fer fyrir malavíska hópnum ásamt Sigurði á meðan dvölinni stendur.

„Ég er knattspyrnuáhugamaður sjálfur og spila með öðrum körlum úti. Í gegnum fótboltann kynntumst við Sigurður aðalþjálfurum akademíunnar. Við erum góðir vinir og okkur langaði að gera eitthvað fyrir þá. Einn daginn sátum við saman og þá kviknaði á perunni – við ættum að fara með strákana á Rey Cup,“ segir Bragi.  

„Við hugsuðum fyrst að kannski myndi þetta ekki ganga upp, enda rándýrt að fljúga, helmingur strákanna ekki með passa og einhverjir þeirra munaðarlausir.“  

Bragi og Sigurður létu þó á ekki deigan síga og höfðu fljótlega samband við forsvarsmenn Rey Cup sem tóku hugmyndinni fagnandi. Eftir það fór boltinn að rúlla.  

„Það vildu allir hjálpa“

„Rey Cup og Þróttur tóku okkur ótrúlega vel og sögðust ætla að bjóða strákunum á mótið. Síðan byrjuðum við með hópfjármögnun en á endanum ákváðu bandarískir styrktaraðilar akademíunnar að borga fyrir flugið og við það minnkaði pressan,“ segir Bragi.  

Bragi segir forsvarsmenn Rey Cup eiga mikið hrós skilið fyrir …
Bragi segir forsvarsmenn Rey Cup eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa boðið drengjunum á mótið. Ljósmynd/Aðsend

Því næst var leitað til íslenskra styrktaraðila sem voru allir af vilja gerðir að leggja málstaðnum lið. „Það var eiginlega alveg sama hvert ég hringdi, það vildu allir hjálpa,” segir Bragi, en fjölmörg íslensk fyrirtæki ákváðu að styðja við bakið á drengjunum.  

„Þeir eru til dæmis í fötum frá 66°Norður, þeir fengu bolta frá KSÍ og fara fimm sinnum í mat á Wok On. Svo fara þeir í Skopp, fá að skoða Gullfoss og Geysi og í hvalaskoðun. Þetta verður ótrúleg upplifun fyrir þá, segir Bragi, en margir drengjanna þurftu að glíma við gífurlega fátækt og erfiðar aðstæður áður en þeir gengu til liðs við akademíuna.

Eitt fátækasta ríki heims

Bragi segir það vera virkilega þýðingarmikið fyrir ungu knattspyrnumennina að fá að spila á Íslandi og fyrir akademíuna að senda fulltrúa á mót af þessu tagi.

Þetta er svakaleg upplifun og kannski eitthvað sem sumir þeirra fá aldrei að upplifa aftur, en fyrir aðra er þetta ótrúlega verðmæt reynsla ef þeir fara einhvern tímann í skóla í Bandaríkjunum eða á reynslu hjá félagsliðum,“ segir Bragi.  

Hér sjást drengirnir ganga í Laugardalnum ásamt þjálfara sínum og …
Hér sjást drengirnir ganga í Laugardalnum ásamt þjálfara sínum og Sigurði Þráni Geirssyni sem hjálpaði drengjunum að gera Íslandsferðina að veruleika. Ljósmynd/Aðsend

Ascent Soccer er eina knattspyrnuakademían í Malaví, sem er á meðal fátækustu ríkja heims. Í akademíunni eru drengir sem þjálfarar akademíunnar hafa séð spila, en þeir heimsækja þorp þar í landi í leit að ungu og efnilegu knattspyrnufólki.  

„Þetta er eina knattspyrnuakademían í Malaví. Hér búa tuttugu milljónir manna og landið er á stærð við Ísland þannig að það er fólk allsstaðar. 90% fólks er hvorki með aðgang að rennandi vatni né rafmagni þannig þetta er mjög frumstætt.

Þjálfarar akademíunnar heimsækja þorp, halda fótboltamót, finna þá sem þeim finnast góðir og skoða síðan hvort strákarnir kunni að lesa og hvort þeir geti lært,” segir Bragi. Hann segir markmið akademíunnar ekki einskorðast við knattspyrnu, heldur gangi hún út á það að bjóða börnunum upp á fleiri og betri tækifæri í lífinu.  

Krefjandi aðstæður fyrir kvennaknattspyrnu

Akademían heldur einnig úti stúlknaliði, en að sögn Braga er það ekki algengt í Afríku. Oft geti aðstæður til þess að mynda og viðhalda slíkum liðum reynst krefjandi, þar á meðal í Malaví.  

„Það eru alls konar vandamál sem þarf að glíma við, til dæmis barnahjónabönd. Þjálfararnir þurfa fyrst að berjast fyrir því að fá stelpurnar og síðan fyrir því að fá að halda þeim,” segir Bragi. Hann segir mikinn metnað fyrir uppbyggingu stúlknaliðs innan akademíunnar þó vera til staðar og dáist að þjálfurunum fyrir að gefast ekki upp þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. 

„Draumurinn er að komast með stúlknalið á ReyCup eftir eitt eða tvö ár,“ segir Bragi loks, en forvitnilegt verður að fylgjast með því hvort hægt verði að endurtaka leikinn og gefa stúlknaliði akademíunnar færi á því að spreyta sig á ReyCup á næstu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert