Tveir fluttir á slysadeild eftir sjóslys út af Njarðvíkurhöfn

Mikill viðbúnaður var við höfnina í Njarðvík í kvöld.
Mikill viðbúnaður var við höfnina í Njarðvík í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Tveir voru fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi í kvöld. Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um sjóslys út af Njarðvíkurhöfn klukkan 19.39. Voru tveir menn í sjónum. 

Viðbragðsaðilar lögreglu, sjúkraliðs, Landsbjargar ásamt og þyrlu Landhelgisgæslunnar voru kallaðar til og var búið að ná mönnunum úr sjónum um klukkan 20:11.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir að ekki sé unnt að greina frá ástandi aðilanna að svo stöddu og að ekki verði veittar frekari upplýsingar að sinni.

Fréttin var uppfærð kl. 21.23 þegar upplýsingar bárust frá lögreglu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í útkall í Njarðvíkurhöfn á áttunda tímanum í kvöld. Hreggviður Símonarson, stýrimaður hjá Gæslunni, gat ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu. 

Þá var björgunarsveitarbíll með bát á kerru á hraðferð um Reykjanesbrautina upp úr klukkan átta í kvöld. 

Mikill viðbúnaður lögreglu og sjúkraflutningamanna var við slippinn í höfninni í kvöld.

Jón Þór Víglundsson, staðfesti að um útkall í höfninni í Njarðvík væri að ræða, en gat ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.

Ljósmynd/Aðsend
Þyrla Gæslunnar við Njarðvíkurhöfn nú í kvöld.
Þyrla Gæslunnar við Njarðvíkurhöfn nú í kvöld. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert