Malbikun gatna og vega er í uppnámi þar sem Vegagerðin og sveitarfélög hafa ekki nægilega fjármuni til að standa að nauðsynlegu viðhaldi.
„Heilt yfir getur maður sagt að það sé verulegur samdráttur í bransanum,“ segir Sigþór Sigurðsson framkvæmdastjóri Colas.
Eftir tvö góð ár þar sem framkvæmdir hafa verið miklar er breyting að verða á. Nýframkvæmdum hefur verið frestað og útboð ekki á sjóndeildarhringnum.
Hann segir að uppsagnir séu fyrirsjáanlegar meðal fyrirtækja í greininni og þetta sé í raun fyrsta árið eftir hrunárin þar sem horft er fram á mikinn samdrátt og fækkun starfsfólks.
Framkvæmdastjóri Colas segir að það stefni í óefni og telur að opinber fyrirtæki vanræki viðhald sem birtist fólki til dæmis í myglu í fjölmörgum byggingum.
„Þetta er ekki það vinsælasta meðal stjórnmálamanna en menn verða að fara að vakna til lífsins um að það þurfi að halda við eignum sínum.“
Það eru þó einnig jákvæðar fréttir af nýsköpun í malbikun, en Colas hefur þróað kaldblandað malbik sem er að öllu leyti endurunnið og var til dæmis lagt á veginn milli Hveragerðis og Selfoss.
Meira má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.