Alþjóðlegt rannsóknarteymi jarðfræðinga, ásamt Geimvísindastofnun Íslands (ISA), lagði nýverið leið sína að Lambahrauni í leit að jarðsýnum sem munu nýtast til að undirbúa greiningu á sýnum sem NASA-könnuðurinn Perseverance rover safnar nú á plánetunni Mars. Verkefnið nefnist „To Mars via Iceland“ eða Til Mars gegnum Ísland.
„Þetta er hluti af mun stærra verkefni sem heitir Mars Sample Return, sem er einnig hluti af enn stærra verkefni, Mars 2020, en það hófst þegar NASA-könnuðurinn var sendur til rauðu plánetunnar í leit að fornu lífi í Jezero-gíg,“ segir Daniel Leeb, framkvæmdastjóri ISA, um verkefnið í samtali við Morgunblaðið.
NASA-könnuðurinn býr yfir tækni til þess að safna jarðsýnum úr bergi og yfirborði á Mars, en könnuðurinn er búinn öflugum greiningartækjum sem gefa nákvæmar upplýsingar um sýnin sem safnast. Verða sýnin svo aftur send til jarðar á næstu árum.
Að sögn Daniels gengur því Mars Sample Return út á að safna jarðsýnum frá rauðu plánetunni og flytja þau aftur til jarðar þar sem þau verða rannsökuð nánar í leit að vísbendingum sem staðfesta örverulíf á Mars og hvort plánetan hafi eitt sinni verið lífvænleg.
„Við vitum nú þegar að Mars hafði eitt sinn vatn, og við vitum að Jezero-gígur var fullur af vatni. Svo vitum við að jarðefnafræði gígsins, áhrif jarðhita, eldvirkni, og öll jarðfræði Mars er mjög lík þeirri sem er hér á landi,“ segir hann.
Daniel segir að Ísland sé einkar mikilvægt fyrir verkefnið í ljósi þess að jarðfræðin hér á landi geti varpað ljósi á jarðsýnin sem eiga eftir að koma frá NASA-könnuðinum og hjálpað vísindamönnum að skilja og átta sig betur á því hvaða tækni sé nauðsynleg til þess að greina sýnin.
Hópur vísindamanna frá bandarísku og evrópsku geimferðastofnununum, NASA og ESA, komu til Íslands í leiðangur til þess að safna 450 kílóum af íslensku bergi og berghulu.
Á það eftir að aðstoða vísindamenn við að varpa ljósi á sýnin sem koma aftur til jarðar með könnuðinum og undirbúa greiningu á þeim.
Umfjöllunina má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út á fimmtudaginn.