Hilmar B. Jónsson matreiðslumeistari eldaði fyrir marga á langri starfsævi. Eftirminnilegt á ferlinum var þegar hann eldaði humar fyrir 150 manna teymi Clint Eastwood og líka fyrir kappann sjálfan. mbl.is fékk Hilmar til að rifja þetta upp.
Hilmar segir málið þannig tilkomið að á þeim tíma hafi Ævar Agnarsson verið forstjóri fiskútflutningsfyrirtækisins Icelandic. Leið Ævars hafi hafi legið á bar í Reykjavík þar sem hann hafi hitt fyrir engan annan en stórleikarann Clint Eastwood.
Leikarinn var þá á Íslandi við tökur á stórmyndinni Flags of Our Fathers. Í spjalli Ævars og Eastwood hafi Ævar spurt hann hvaða matur á Íslandi honum þætti bestur. Stóð ekki á svörum, hann sagði það vera grillaðan íslenskan humar.
Ævar vildi gjarnan launa honum það að hafa valið Ísland til að taka upp þessa stórmynd. Sagðist hann ætla að láta elda humar fyrir Eastwood og allt teymi hans. Vandinn var sá að Eastwood og lið hans voru á leið til Bandaríkjanna stuttu eftir þetta. Ævar dó ekki ráðalaus heldur fékk Hilmar til þess að elda ofan í mannskapinn þar sem hann var staddur í Chicago.
Hilmar fékk til umráða tvo gríðarstóra færanlega veitingavagna með fullkomnu eldhúsi innanborðs. Var humarinn eldaður ofan í hersinguna og framreiddur í hádeginu. Clint Eastwood stóð í röð með öllum hinum og fékk sinn skammt.
Þegar framreiðslu var lokið fór Hilmar að ganga frá. Kemur þá hlaupandi til hans maður og spyr hvort það sé lífsins mögulegt að fá ábót fyrir Hr. Eastwood. Hilmar hélt nú það, en með því skilyrði þó að Hilmar færði honum sjálfur matinn.
Hilmar bar honum ábótina og sá laust sæti við hlið hans. Án þess að tvínóna við hlutina fékk hann sér sæti við hlið kappans. Eitthvað var samræðufærni stjörnunnar ábótavant, hann rumdi eitthvað eða umlaði. Hilmar sagðist þekkja til í heimabæ leikarans, Carmel í Kaliforníu. Eastwood hafði einnig gegnt stöðu bæjarstjóra þar um tíð.
Hilmar hafði þá heimsótt Carmel í þrígang og þekkti bæinn vel enda íslenskur vinur hans búsettur þar um tíð. Hilmar sagðist hafa snætt á veitingastað í eigu Eastwood í bænum og bar honum vel söguna. Aftur rumdi Eastwood eitthvað en sagði fátt. Hilmar sagðist þá hafa heimsótt vin sinn sem ynni þar á írskri krá í bænum. Kemur þá heil setning upp úr Clint: „Yeah, I guess there is an Irish pub here.“
Carmel er tæplega stórbær og líklega þekkir bæjarstjórinn fyrrverandi hverja þúfu þar. Ekki urðu samræður Hilmars og Clints mikið lengri og ekki þakkaði hann fyrir það Hilmar hafi matreitt ókeypis dýrasta mat á Íslandi ofan í 150 samstarfsmenn hans.
Kona kom aðvífandi og spurði hún hvort hún mætti ekki taka mynd af Hilmari með stjörnunni. Það var og gert og bauðst hún til að senda Hilmari eintak af myndinni. Hann rétti henni nafnspjald sitt, en myndina hefur hann aldrei fengið senda.
Það var þó einhverju seinna að Ævar Agnarsson fékk boð frá Eastwood að hann vildi þakka honum fyrir matinn með því að bjóða honum að leika á golfvellinum í Carmel, sem þykir einn sá besti í Bandaríkjunum. Hittist þá svo á að Ævar var hlaðinn verkefnum í vinnu og gat aldrei þegið boðið.
Hilmar er nú búsettur í þorpinu Orihuela á Suður-Spáni. Hann dundar sér við að skrifa smásögur úr viðburðaríkri starfsævi, og frásögnin að ofan birtist að hluta á síðunni Veitingageirinn.
Hilmar vann í Bandaríkjunum samtals 22 ár og segir hvern einasta dag þess tíma hafa verið sem ævintýri. „Þetta var ekki eins og að vinna. Þetta var bara gaman, gaman og meira gaman.“
Vinna hans í Bandaríkjunum var tengd markaðsstarfi Icelandic. Hann segir sjálfur að hans hlutverk hafi verið að kenna Bandaríkjamönnum að elda fisk. Fyrstu tíu árin var hann formlega búsettur á Íslandi en fór til vinnu til Bandaríkjanna fjórum sinnum á ári í sex til átta vikur í senn. Þegar Icelandic flytur til Virginíu, þá flyst Hilmar líka búferlum alfarið til Bandaríkjanna.
Ferðalögin minnkuðu síst við það. „Ég var 240 daga á hóteli þessi tólf ár sem ég bjó í Virginíu. Ég var að fljúga hátt í hundrað sinnum á ári. Maður fór út á mánudagsmorgni og kom heim á föstudagskvöldi. Var líka að vinna minnst tíu helgar á ári.“
Hilmar segist aldrei hafa litið á að þetta væri slítandi. Hann segist þó hata flugvélar og flugvelli en vinnan var svo skemmtileg, að hann hafi ekkert látið það ergja sig.
Nú þegar starfsævinni er lokið er Hilmar kominn suður til Spánar eins og fyrr greinir. Hann segir það vera snúið að vera ellilífeyrisþegi á Íslandi. Nú er hann í litlum smábæ, 45 mínútum frá flugvellinum í Alicante.
„Það kostar 1/3 að lifa á Spáni miðað við Ísland. Maður hefur það ljómandi hér, í stuttbuxum og stuttermabol megnið af árinu,“ segir Hilmar að lokum.