Látinn eftir sjóslys út af Njarðvíkurhöfn

Maðurinn var úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús.
Maðurinn var úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús.

Annar mannanna tveggja sem var bjargað úr sjónum út af Njarðvíkurhöfn er látinn. Var hann úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús.

Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

„Þetta er bátur sem að sekkur, þarna eru menn sem reyna að synda til lands. Þeim er bjargað úr sjónum en annar er úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús,“ segir Úlfar en mennirnir hafi verið á sjötugsaldri.

Spurður hvað mennirnir hafi verið að gera úti á sjó segist hann ekki geta fullyrt um það.

Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur 

Tilkynningu vegna málsins frá lögreglunni má lesa hér að neðan. Þar kemur fram að um fimm metra sportbát hafi verið að ræða en tildrög slyssins séu til rannsóknar.

Til­kynn­ing um sjó­slys út af Njarðvík­ur­höfn barst klukk­an 19.39 í gærkvöldi. Viðbragðsaðilar lög­reglu, sjúkra­liðs, Lands­bjarg­ar, ásamt þyrlu Land­helg­is­gæsl­unn­ar, voru kallaðir til og var búið að ná mönn­un­um úr sjón­um um klukk­an 20.11.

Tilkynning lögreglu: 

Annar aðili sjóslyssins í gærkvöldi utan Njarðvíkurhafnar, karlmaður á sjötugsaldri, er látinn.

Hann var fluttur meðvitundarlaus af vettvangi með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir endurlífgunartilraunir.  Frekari endurlífgunaraðgerðir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn kl. 22:30 í gærkvöldi á Landspítalanum á Hringbraut.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur verið upplýst um slysið, en samkvæmt fyrstu upplýsingum lögreglu voru þeir tveir um borð á 5 metra sportbáti sem síðar sökk. Tildrög þess liggja ekki fyrir og er rannsókn málsins á frumstigi hjá lögreglu.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo komnu máli.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert