Lifað 45 eldgos á tæplega 100 árum

Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri.
Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri. mbl.is/Hákon

Ég læt það alveg ósagt. Ég tek því ef ég verð ekki mikið eldri og ég tek því líka ef ég verð eldri ef ég verð ekki alltof slappur og veikur. Maður vonar það besta.

Þetta segir Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri, spurður hvað hann stefni á að ná háum aldri en hann verður 100 ára þann 13. ágúst.

Páll fagnaði 95 ára afmæli sínu með því að fara í fallhlífarstökk með fyrirtækinu FFF. Spurður hvort hann ætli að endurtaka leikinn núna svarar hann því neitandi og segist ætla að fagna með veislu í góðra manna hópi.

„Fjölskyldan mín ætlar að safna saman heilmiklum hópi í Guðríðarkirkju. Það verða meira en 100 manns. Þetta verður heilmikil veisla geri ég ráð fyrir. Það er ekki gott að segja hvort ég fari í fallhlífarstökk aftur. Það er ósköp hættulaust ef maður er ekki hræddur.“

Aldrei notað tóbak né áfengi

Páll segist enn vera hress þrátt fyrir aldur og tekur fram að hann hafi haldið sér ungum með því að neyta hvorki áfengis né tóbaks. 

„Það hefur lengt lífið, það er enginn vafi. Ég hef ekki stundað mikla erfiðisvinnu. Það var ekki mikil líkamleg erfiðisvinna á veðurstofunni. Ég þykist hafa passað vel upp á líkamann í gegnum árin.“

Reiknar með því að sjá gosið við Litla-Hrút

Síðan að Páll fæddist árið 1923 hafa orðið samtals 45 eldgos á Íslandi. Spurður hvaða eldgos sé minnisstæðast segist hann muna vel eftir því þegar Hekla gaus árið 1947.

„Þegar ég vaknaði um morguninn var himininn þakinn skýjum frá þessu gosi. Allur austurhimininn séð frá Reykjavík. Ég var á veðurstofunni þá og því fór ég fljótlega að skoða þetta gos og það var mjög minnisstætt.“

Þegar hann var 97 ára fór hann að sjá eldgosið við Fagradalsfjall. „Ég hef séð aðeins af þessum eldgosum á Reykjanesskaga. Þau eru ekki sérlega stór.“

Hann reiknar með því að fara að skoða eldgosið við Litla-Hrút. 

Pælir mest í veðri næsta dags

„Þetta er mjög svipað og ég hafði búist við. Þóttist vita það nokkurn veginn hvernig þetta yrði. Ég er ánægður með það að líða ekki illa, 100 ára. Ég finn eiginlega hvergi til en aðeins slappur í löppunum,“ segir hann spurður hvernig það leggst í hann að verða 100 ára.

Hann segist enn hafa hugann við veðurfræðina á þessum aldri en tekur þó fram að hann velti mest fyrir sér hvernig veðrið verður daginn eftir.

„Maður er ekki á þessum aldri til að uppgötva mikið. Nema það að maður veit betur á morgun en í dag hvernig veðrið verður þá,“ segir hann kíminn.

Segir hitann hækka of mikið

Hann segist hafa þó nokkrar áhyggjur af loftslagsbreytingum og tekur fram að hitinn hækki alltof hratt.

„Það hefur hlýnað alltof mikið og það er eiginlega manneskjunni að kenna. Fólki hefur fjölgað úr einum milljarði á nítjándu öld upp í átta milljarða núna. Þessir átta milljarðar þurfa heilmikið að borða og drekka og það kostar sitt.“

Spurður hvaða skilaboð hann vill koma áleiðis til yngri kynslóða segir hann:

„Maðurinn veit nokkuð hvað hann hefur gert og hann á að geta hagað sér eftir því og lagfært sínar vinnuaðferðir til að valda ekki svona mikilli hlýnun. Það þarf að taka því dálítið alvarlega hvað er að hlýna mikið núna loftslagið. Til dæmis að forðast sem mest að brenna olíu. Miklu frekar að spara eldsneyti til þess að jörðin hitni ekki jafn mikið.“

Unglingsárin best

Spurður hvaða tímabil á hundrað ára ævi hans hafi verið best segir hann það vera unglingsárin.

„Þegar maður er hraustastur og býst við mestu í framtíðinni. Ég hef líka haft töluvert yndi af því sem ég hef verið að gera í sambandi við veðurfræði,“ segir hann og bætir við að hann treysti þeim sem starfi nú á Veðurstofu Ísland vel.

„Ég læt það alveg ósagt. Ég tek því ef ég verð ekki mikið eldri og ég tek því líka ef ég verð eldri ef ég verð ekki alltof slappur og veikur. Maður vonar það besta,“ segir hann spurður hvað hann reikni með að verða gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert