Slökkvilið Grindavíkur heldur áfram að kljást við gróðureldana við gosstöðvarnar. Um er að ræða stærsta gróðureldaverkefni sem slökkviliðið hefur farið í. Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri segir verkefnið vissulega taka á, áreitið sé þó sem betur fer ekki stöðugt. Hann sé þó farið að langa ógurlega mikið í rigningu.
„Staðan er þannig að það rignir ekki neitt. Á svona stórum vettvangi er alltaf hætta á því að þetta kvikni aftur og því miður þá eru þeir að færa sig upp á skaftið aftur,“ segir Einar í samtali við mbl.is um gróðureldana. Eldarnir séu enn á ný að færast í aukana og bregðast þurfi við því.
Fimmtán manna teymi sjái almennt um aðgerðirnar.
„Við vorum ekkert í gær, við stefnum á að fara og flytja vatn með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag og fara að taka einhverjar tarnir í þessu, reyna að halda þessu niðri,“ segir Einar.
Spurður hvort að um einskonar vítahring sé að ræða í þessum málum játar hann því.
„Jarðvegurinn er náttúrulega gríðarlega þurr og það er eldgos með glóðum og öllu sem því fylgir. Þá er alltaf hætt við því að þetta kvikni alltaf aftur og aftur þegar svoleiðis er,“ segir Einar en rigningin sé nauðsynleg.
„Mig hefur sjaldan langað eins mikið í rigningu og akkúrat núna.“
Þá segir hann slökkvilið Grindavíkur fá aðstoð frá öðrum slökkviliðum þegar þörf sé á ásamt hjálp frá björgunarsveitinni Þorbirni, björgunarsveitin hjálpi mikið með aðföng.
Þetta hlýtur að vera gríðarlegt álag, að þurfa að standa í þessu og vera með viðbragð annars staðar?
„Þetta er lang stærsta verkefni sem við höfum staðið í. Við höfum aldrei verið með svona stórt gróðurverkefni í svona marga daga. [...] Þetta er náttúrulega ekki stöðugt, við náðum þessu niður og gáfum slaka og svo er þetta að aukast aftur og þá þarf að auka viðbragð í því. Þetta er ekki stöðugt áreiti,“ segir Einar.
„Svo náttúrulega erum við í hásumarfrístímabili þannig það tosar líka í að geta mannað þetta frá öðrum liðum, það er alls staðar sumarfrí en einhvern veginn þá hefst þetta. Þetta er aðallega að koma aðföngum, að koma vatni upp, það er mesta áskorunin,“ segir Einar að lokum.