Annað ráðuneyti flyst í Norðurhús

Vegna hás leigukostnaðar í nágrenni við Stjórnarráðsreitinn var fallið frá …
Vegna hás leigukostnaðar í nágrenni við Stjórnarráðsreitinn var fallið frá áformum um leiguhúsnæði. mbl.is/Árni Sæberg

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið flytur í haust í framtíðarhúsnæði í Norðurhúsi við Austurbakka. 

Ráðuneytið hefur frá stofnun haft tímabundna skrifstofuaðstöðu í húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins í Arnarhvoli, en leitað hefur verið að húsnæði frá byrjun árs 2022. Húsnæðisnefnd Stjórnarráðsins hefur farið fyrir þeirri vinnu. 

Tvö ráðuneyti undir sama þaki

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið flyst í Norðurhús ásamt utanríkisráðuneytinu, en ríkið gerði á síðasta ári samning við Landsbankann um kaup á hluta nýs húsnæðis bankans, svokölluðu Norðurhúsi. 

Vegna hás leigukostnaðar í nágrenni við Stjórnarráðsreitinn var fallið frá áformum um að finna leiguhúsnæði og þess í stað ákveðið að ráðuneytinu yrði fundinn staður í húsnæði í eigu ríkisins. Áætlað er að með þessu sparist yfir 50 milljónir króna í leigukostnað árlega. 

Aðlögun á innra skipulagi hússins fyrir ráðuneytin tvö er þegar lokið. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið verður staðsett á annarri hæð en utanríkisráðuneytið á fyrstu, þriðju og fjórðu hæð. Stefnt er að því að bæði ráðuneytin hefji störf á nýjum stað í október nk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka