Framlög björguðu skólaferð eftir gjaldþrot Niceair

Nemendur í níunda og tíunda bekk Brúarásskóla voru átta talsins.
Nemendur í níunda og tíunda bekk Brúarásskóla voru átta talsins. Ljósmynd/Aðsend

Níundi og tíundi bekkur Brúarásskóla sat eftir með sárt ennið þegar að flugfélagið Niceair sigldi í gjaldþrot fyrr á þessu ári. Áður en tilkynnt var að flugfélagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta voru nemendur í níunda og tíunda bekk í Brúarásskóli, norðan við Egilsstaði, búnir að festa kaup á flugferðum til og frá Danmörku.

Nemendurnir eru átta talsins og höfðu þeir greitt samtals rúmar 700 þúsund krónur vegna skólaferðalagsins en fengu ekki endurgreitt frá Niceair eftir að ljóst var að rekstur flugfélagsins myndi ekki halda áfram.

Ásgrímur Ingi Arngrímsson, skólastjóri Brúarásskóla, greinir frá þessu í samtali við mbl.is. „Við fengum það í hausinn að þeir fóru á hausinn,“ segir hann kíminn.

Framlög björguðu deginum

Ásgrímur segir að allt hafi stefnt í að aflýsa þyrfti ferðinni en að svo hafi komist í ljós að Brúarásskóli ætti virkilega góða að og voru ýmsir tilbúnir að leggja fram hjálparhönd til að bjarga skólaferð nemendanna.

„Það er skemmst frá því að segja að ferðasjóðnum barst rausnarleg framlög úr ýmsum áttum og þar má nefna Hlyn Bragason, eiganda Sæti ehf, Rótarýklúbbinn á Héraði og Blikkrás ehf á Akureyri. Auk þess gaf Kristján Atli Baldursson ferðasjóðnum 100 pinnaspil sem hægt verður að selja til styrktar ferðasjóðnum.“

Hann segir að þessi framlög hafi bjargað skólaferð nemendanna sem heppnaðist vel. Nemendurnir fóru til Kaupmannahafnar í lok maí og skemmtu sér konunglega ásamt Kristínu Árnadóttur, fararstóra ferðarinnar sem er kennari við skólann.

Engar upplýsingar frá Niceair 

Hann segir það ámælisvert að þeim hafi ekki borist neinar upplýsingar frá Niceair í kjölfar gjaldþrotsins og segir með öllu óljóst hvort þau fái einhvern tímann endurgreitt.

„Þeir svöruðu engum fyrirspurnum. Svo varð ljóst að ekkert yrði úr þessu. Við vöktum athygli á þessu í fjölmiðlum og vonuðumst til þess að flugfélagið og opinberir aðilar sæju til þess að fólk fengu einhver svör,“ segir hann en svo varð ekki. 

„Það óvænta sem kom úr því var að við áttum svona feykilega gott bakland,“ segir hann og tekur fram að ómetanleg framlög frá ýmsum aðilum bættu að stærstum hluta það tjón sem þau hafi orðið fyrir vegna gjaldþrots Niceair.

Flókið ferli

Hann segist hafa heyrt af öðrum grunnskólum sem höfðu verið í sömu sporum og þau sem urðu ekki jafn heppin og nefnir einnig einstaklinga sem urðu illa úr því að eiga flugkort eða bókaða flugferð með flugfélaginu.

 „Ég var mjög hugsi yfir þessu. Það að neytendur fái ekki meiri aðstoð en raun ber vitni. Það er svo flókið ferli í kringum þetta að það er í rauninni ekkert fyrir venjulegt fólk að setja sig inn í þetta. Það þyrfti að vera opinber aðili sem myndi taka við svona málum. Það er rosa erfitt fyrir fólk í fullri vinnu að finna út úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert