Karlotta Líf Sumarliðadóttir
„Maður sér á vefmyndavélum að barmurinn er orðinn ansi fullur. Hann hefur verið að byggjast svolítið vel upp í nótt.“
Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um stöðuna á eldgosinu við Litla-Hrút.
Gosóróinn hefur verið stöðugur í nótt. Þá hafa um tuttugu jarðskjálftar mælst á svæðinu frá miðnætti.
„Það er lítið að sjá á óróa. Þetta mallar þarna og nýtur sín,“ segir Minney.
Hraunrennslið virðist nú vera alfarið neðanjarðar. Minney segir það ekki óeðlilegt.
„Yfirborðið storknar og það myndast rásir undir þannig að það er bara ósköp venjulegt og gerist oft, svo kemur fyrir að yfirborðið hrynji og þá sérðu hraunið aftur, eða ekki.“
Minney hvetur fólk til að fylgjast með loftgæðum á loftgaedi.is sem og gasmengunarspá Veðurstofunnar. Búast megi við gasmengun á höfuðborgarsvæðinu í dag, sem og í Vogum.