Útlit er fyrir að lægð muni feykja gosmenguninni út á haf á miðvikudaginn.
Gosmóða hefur verið yfir höfuðborgarsvæðinu í dag og verður það á morgun en vaxandi suðaustanátt verður annað kvöld. Útlit er fyrir nokkuð stífa austan- og norðaustanátt á miðvikudag, sem útlit er fyrir að muni kveða mengunina í kútinn.
Gosmóða á höfuðborgarsvæðinu er minni í dag en í gær að sögn Þorsteins Jóhannssonar, loftgæðasérfræðings hjá Umhverfisstofnun.
Allur gangur er á því hvort mengunin mælist á gasmælum þar sem hluti hennar er brennisteinsdíoxíð sem hefur hvarfast í agnir sem mætti kalla brennisteinssvifryk (SO4).
„Þetta er eldri gosmökkur. Þetta er kannski vikugömul mengun sem hefur verið á ferð í hafinu sunnan Íslands og er komin til baka. Á þessum tíma er hún búin að hvarfast úr SO2 í SO4, sem mætti kalla brennisteinssvifryk. Þá er það ekki lengur gastegund og mælist ekki á gasmælunum heldur á svifryksmælunum, sem fínt svifryk.“
Þá er hvarf SO2 í SO4 háð hitastigi, loftraka og sólskini og gengur því hraðar á sumrin. Misjafnt er hvaða lofttegundir mælingar Umhverfisstofnunar taka mið af, sem birtar eru á loftgaedi.is.
„Í raun þarf tvennt að mæla, SO2, sem við mælum víða og síðan fína svifrykið, sem við mælum líka víða. Ekki alltaf á sömu stöðum. En þessi tvö efni mælum við á stöðum sem eru fjær gosstöðvunum,“ segir hann.
Nærri gosstöðvunum þurfi að mæla fleiri efni, svo sem koltvíoxíð, sem nái slíkum styrk við gosið að það fari að þynna út andrúmsloftið.
Þorsteinn segir aðspurður að Umhverfisstofnun hafi fengið tilfallandi ábendingar um óþægindi sem fólk fann fyrir vegna mengunar um helgina. Hann segir að gosmóða sé nokkuð sem líklegt er að muni sjást oftar ef áfram heldur að gjósa.