Lögreglan veitir ekki upplýsingar um Lambeyrar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra. Samsett mynd

„Ég þekki ekkert til þessa máls. Lögreglan á Vesturlandi getur tjáð sig um mál sem er búið að rannsaka. Það er hægt að biðja um það samkvæmt upplýsingarétti. Það er hvort að málinu sé lokið eða hver niðurstaðan varð, í versta lagi segir lögreglan bara nei.“

Þetta segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri spurð hvort að ásakanir gegn lögreglunni á Vesturlandi vegna Lambeyramálsins svokallaða hafi verið til umræðu hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hún segir málið ekki hafa verið rætt innan embættisins.

Eins og greint hefur verið frá hafa staðið yfir hatrammar ættardeilur innan fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, frá árinu 2007 og hefur Ásmundur meðal annars verið sakaður um innbrot.

Ása Skúladóttir, ein af þremur systrum sem standa fyrir hlaðvarpinu Lömbin þagna ekki, hefur sakað lögregluna á Vesturlandi um aðgerðarleysi í kjölfar síendurtekinna skemmdarverka og innbrota á jörðinni Lambeyrum sem er nú í eigu föður Ásu, Skúla Einarssonar. 

Lögreglan á Vesturlandi tjáir sig ekki efnislega

Lögreglan á Vesturlandi sagði í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að þeim væri ekki heimilt að svara fyrirspurninni efnislega og vísuðu til stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. 

„Lögregla fær margar tilkynningar og sinnir þeim eins og nokkur kostur er. Þannig er sinnt fjölmörgum verkefnum um allt umdæmið og á öllum tímum sólarhrings. Verkefni krefjast mismunandi nálgunar og meðferðar og eru afgreidd í samræmi við tilefni og starfsreglur.

Í lögum er mælt fyrir um kæruheimildir og kæruleiðir sem hagsmunaaðilar geta notfært sér ef þeir eru ósáttir við aðgerðir eða aðgerðaleysi lögreglu,“ segir í svari lögreglunnar á Vesturlandi.

Upplýsingar er varða persónuvernd

Kristján Ingi Hjörvarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir í samtali við mbl.is að upplýsingarnar varði persónuvernd og þar með sé ekki hægt að veita upplýsingar um einstaka mál er varða Lambeyrar.

„Þetta snýr að persónuvernd. Almennt getur lögreglan ekki gefið upp hvað er oft búið að fara heim til einhvers. Þetta eru persónugreinanlegar og rekjanlegar upplýsingar sem snerta fólk sem þarna býr og þar af leiðandi er lögreglunni ekki heimilt að veita þessar upplýsingar,“ segir Kristján.

Spurður um ásakanir sem varða meint aðgerðarleysi lögreglunnar á Vesturlandi segir Kristján: „Lögreglan, lögum samkvæmt, sinnir sinni vinnu alveg óháð því hver hringir eða hvert útkallið er.“

Þröngur rammi til að veita upplýsingar

Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að almennt séð sé einungis málsaðilum tiltekinna mála veittar upplýsingar um einstaka mál. 

„Nema að hlutirnir séu orðnir á almannafæri og aðilarnir sjálfir farnir að tjá sig um málið. Það er þá afmarkaður rammi sem lögreglan hefur heimild til að tjá sig um það. Það er ekkert val, lögreglan hefur einfaldlega mjög þröngan ramma þegar hún tjáir sig opinberlega um mál.

Hann tekur fram að lögreglunni finnist mikilvægt að upplýsa um allt sem gengur á í samfélaginu en á móti komi að hafa ekki áhrif á mál sem verði mögulega að lögreglumáli seinna meir eða er nú þegar búið að leiða til lykta á öðrum vettvangi. 

Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra.
Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra. Ljómsynd/Ríkislögreglustjóri

Spurður hvort að ásakanir gagnvart lögreglunni á Vesturlandi hafi verið ræddar innan veggja embætti ríkislögreglustjóra svarar Gunnar því neitandi.

„Það er ekki tekið fyrir á þessum vettvangi. Ef fólk hefur eitthvað út á starfsemi lögreglu að setja er það nefnd um eftirlit með lögreglu sem tekur á slíkum málum. Ríkislögreglustjóri er ekki eftirlitsaðili með rannsóknum lögreglu,“ en embætti ríkislögreglustjóra sinnir eftirliti með öðrum atriðum en rannsókn einstakra lögregluumdæma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert