„Hann Ásmundur sagði ósköp lítið en samt sagði hann töluvert. Ef maður rýnir aðeins í þetta segir hann með beinum orðum að hann hafi staðið með pabba sínum í byrjun og með óbeinum hætti að hann hafi verið í þessu á fullu í byrjun, því hann segist ekki hafa komið nálægt þessu síðustu ár og gefur þar með sterklega til kynna að hann hafi verið í þessu í byrjun.“
Þetta segir Ása Skúladóttir, stjarneðlisfræðingur og ein af þremur systrum sem standa fyrir hlaðvarpinu Lömbin þagna ekki, í samtali við mbl.is um svar Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, vegna ásakana á hendur sér.
Ása hefur meðal annars sakað Ásmund um innbrot. Í tilkynningu sem Ásmundur sendi frá sér á laugardaginn vegna málsins sagði hann að fjölskylduerjurnar væru honum með öllu óviðkomandi og að hann hafi stigið úr átökunum fyrir mörgum árum síðan.
Hann tók fram að í upphafi deilnanna hafi henn tekið einarða afstöðu með föður sínum og að hann myndi ekki tjá sig frekar um málið á öðrum vettvangi en þeim sem þar til bærir opinberir aðilar kunni að leita eftir.
Í hlaðvarpinu er fjallað um fjölskylduerjur sem eiga rætur sínar að rekja til þess þegar að afi systranna lést árið 2007. Síðan þá hafa staðið yfir hatrammar ættardeilur vegna jarðarinnar Lambeyrar sem erfðist jafnt á milli átta systkina.
Faðir systranna, Skúli Einarsson, keypti jörðina ásamt öðrum árið 2017 á uppboði eftir að faðir Ásmundar Einars Daðasonar, Daði Einarsson, hafði keyrt rekstur jarðarinnar í þrot.
„Hann segir að þetta sé fjölskylduharmleikur sem er alveg hárétt en hann er einn af lykilmönnunum í að gera þetta að harmleik. Á sínum tíma er hann alveg á fullu í því að setja jörðina í þrot. Það er staðreynd,“ segir Ása og minnir á að Daði og Ásmundur hafi sólundað föðurarfi systkininna átta með því að veðsetja jörðina „upp í rjáfur“.
Hún tekur fram að eftir að jörðin fór á nauðungarsölu árið 2017 hafi Ásmundur verið forvígismaður þess að sverta mannorð systranna og Skúla Einarssonar fyrir stórættinni. Á hann að hafa logið um Skúla og systurnar og haldið fram rógburði að sögn Ásu.
„Hann fer um ættina og þeir ná að sannfæra alla ættina um að við séum lygarar og illmenni og að það sé ekki hægt að hlusta á okkur. Núna er stórættin að vinna mjög sterkt gegn okkur í öðrum málum sem koma fram í seinni þáttum.“
Ásmundur sagði í tilkynningu sinni að hann hafi stigið úr ættardeilunni fyrir mörgum árum síðan en Ása minni á að hann hafi verið staðinn að innbroti árið 2017. Hún veltir því fyrir sér hvort hægt sé að tala um „mörg ár“ með vísun til þessa. Hún tekur þó fram að Ásmundur hafi ekki verið staðinn að frekari innbrotum eða skemmdarverkum síðan árið 2017.
Hún hvetur fólk eindregið til þess að fylgjast með komandi þáttum hlaðvarpsins til að fá heildarmynd af þátttöku Ásmundar í málinu.
„Áhrif ráðherra eru enn í þessu máli. Hvort sem að Ásmundur vill það eða ekki. Það að hann sé ráðherra hefur bein áhrif á þetta mál.“
Ásmundur var alþingismaður árið 2017 þegar hann var að sögn Ásu staðinn að innbroti í hús á jörðinni og varð seinna sama ár félags- og jafnréttismálaráðherra. Í fyrstu málsgrein 49. grein stjórnarskrár Íslands segir:
„Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.“
Ása segir þetta ákvæði vera mjög athyglisvert í ljósi málsins. Ásmundur bar fyrir sig í tilkynningu sinni að hann hafi aldrei verið ákærður né yfirheyrður vegna málsatvika sem eiga rætur sínar að rekja til Lambeyra.
Ásmundur sagði í tilkynningu sinni að hann myndi ekki tjá sig frekar um málið en aðspurð segist Ása ekki vera svekkt yfir því að Ásmundur muni ekki mæta henni í sjónvarpsútsendingu. Ása hafði skorað á Ásmund að mæta sér í sjónvarpssal til að ræða um ættardeiluna í útvarpsþættinum Bítinu.
„Það voru margir sem voru að biðja um að fleiri hliðar kæmu fram. Ég hef ekkert að fela svo að ég held að það hefði bara verið jákvætt ef að hann hefði verið tilbúin að koma fram í sjónvarpssal. Að sjálfsögðu verður okkar saga að einhverju leyti einhliða. Hann er fullorðinn maður og hann ræður bara alveg hvað hann tjáir sig um í fjölmiðlum.“
Ása hefur jafnframt sakað lögregluna á Vesturlandi um stórfellt aðgerðarleysi vegna málsins. Spurð hvort að hún sé vongóð um að lögreglan grípi til aðgerða í kjölfar umfjöllunar um málið svarar hún því neitandi.
„Ég held að lögreglan muni ekki gera neitt núna en þar sem að fjölmiðlar hafa hjálpað okkur að upplýsa þetta mál ætla ég að leyfa mér að trúa að ef það verða fleiri skemmdarverk verður erfitt fyrir lögregluna að neita að mæta á staðinn.“
Annar þáttur hlaðvarpsins kom út í dag og tekur að mestu fyrir hlut Valdimars Einarssonar, bróður Daða og Skúla, í málinu. Hún segir hann vera einn af höfuðpaurunum ásamt Daða þegar það kemur að skemmdarverkum.
„Hann er fyrst og fremst að standa með Daða. Fjallað er um það þegar Valdimar Einarsson kemur til Íslands í miðju Covid árið 2020, brýst inn í nýja húsið á Lambeyrum, og ákveður að fara í sóttkví þar. Hann ranglega hélt því fram að Daði Einarsson, faðir ráðherra ætti þetta hús.
Um er að ræða sama hús og Ásmundur Einar Daðason ráðherra var staðinn að innbroti af lögreglu. Lýst er því hvernig Valdimar er búinn að ná í staura til að „útbúa“ búnað svo ekki sé hægt að opna útidyrahurðirnar. Valdimar setti einnig miða í gluggann þar sem á stóð „Covid sóttkví 2019“. Kallað var á Lögregluna,“ segir Ása sem segir að lögreglan hafi enn eina ferðina gert ekkert í málinu.
Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Lömbin þagna ekki hér.