„Það er mjög skynsamleg ákvörðun að taka eitt skref í einu og sjá til hvaða áhrif það hefur,“ segir Áki Ármann Jónsson formaður Skotvís spurður um viðbrögð skotveiðimanna við tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um sölubann á grágæs.
Fram hefur komið að fleiri en ein leið hafi komið til álita til að bregðast við hnignun grágæsastofnsins, þ.e. sölubann, stytting veiðitíma eða hvort tveggja í senn. Talningar síðastliðin ár sýna að grágæsastofninn hefur farið minnkandi. Grágæs er talin samtímis bæði á Bretlandi og Íslandi og hefur svo verið gert frá árinu 2004. Minnkun stofnsins endurspeglast í veiðitölum, en samdráttur hefur orðið í veiðunum; veiðin var 42.000 fuglar 2020 en 26.000 í fyrra.
Við nokkuð annan tón kveður hjá formanni Bændasamtaka Íslands vegna tillögunnar um sölubann á grágæs.
„Við veltum fyrir okkur hvernig menn verjast ágangi grágæsa í framhaldi af þessu. Ef ekki verður heimilt að selja grágæs fara menn væntanlega ekki að safna þessu í frystikistur. Ég velti fyrir mér hvernig eigi að verjast ágangi þessara fugla á haustdögum,“ segir Gunnar Þorgeirsson formaður samtakanna, en leitað var viðbragða hans við áformuðu sölubanni.
Bændur og einkum þeir sem stunda kornrækt hafa áhyggjur af ágangi gæsa á kornökrum þar sem þær hafa gjarnan valdið spjöllum og þannig haft neikvæð áhrif á uppskeruna að hausti. Gæsir hafa einnig verið ágengar í nýrækt í túnum.
„En þetta er niðurstaða ráðherrans og það er spurning hvernig við bregðumst við henni. Það er líka heilmikið af heiðagæs á ferðinni, en það er ekki verið að takmarka veiðar á henni,“ segir Gunnar og bendir á að heiðagæsin sæki mjög í ræktarlönd, einkum á Austurlandi.
Hálfdán Helgi Helgason, fuglavistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, er ánægður með sölubannið og segir að nú sé að fara af stað gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir grágæs í samvinnu við Breta, en stór hluti grágæsastofnsins hefur vetursetu þar.
Með stofnstærðarlíkani sé hægt að fylgjast með ástandi grágæsastofnsins. Slíkt líkan tekur tillit til ákveðinna breytna, eins og veiða og vaxtargetu stofnsins. Með slíku líkani sé einnig hægt að sjá hvernig bregðast megi við með aðgerðum í veiðistjórnun.