Súrt á meðan á innleiðingu sorpkerfis stendur

Rusl við grenndargámana á Óðinsgötu í Miðgborginni.
Rusl við grenndargámana á Óðinsgötu í Miðgborginni. Mynd/Facebook

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Terra, segir það því miður fylgikvilla innleiðingar nýs kerfis og tækjabilunar borgarinnar að grenndargámar borgarinnar séu yfirfylltir. Hann segir fyrirtækið hafa hraðar hendur um þessar mundir við að fjölga bílum til að hirða sorpið en að því miður sé þetta viðkvæmt kerfi.

„Um leið og það dettur út einn rúntur þá tekur bara ákveðinn tíma að ná því upp aftur,“ segir Valgeir. Hann sé þó fullviss um að þeir nái í skottið á vandamálinu á næstu dögum. 

Rusl við grenndargáma í Vesturbæ.
Rusl við grenndargáma í Vesturbæ. Mynd/Facebook

Áttar sig ekki á magnaukningu

„Svo er náttúrulega þessi magnaukning sem þarf að mæta með meiri tíðni, en ég svo sem átta mig ekki alveg á því af hverju hún er, þar sem ég stend í þeirri trú að víðast hvar séu komnar nýjar endurvinnslutunnur og eru þá orðnar tvær í staðinn fyrir eina.“ 

Friðrik Kling­beil Gunn­ars­son, verk­efna­stjóri hjá um­hverf­is- og skipu­lags­sviði borg­ar­inn­ar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að borgin ráði ekki við endurvinnslu strax, þar sem ekki séu komnar tunnur á öll heimili.

Aðspurður hvers vegna Terra hafi hætt þjónustu fyrr en áætlað var og byrjað að fjarlægja endurvinnslutunnur af heimilum, segir Valgeir að þeir hafi í raun verið með samning við einstaklinga þar sem Reykjavíkurborg hafi ekki boðið upp á endurvinnslutunnur. Þegar að Reykjavíkurborg hafi byrjað að dreifa sínum tunnum hafi flækjustigið hins vegar aukist það mikið að Terra hafi ákveðið að láta af þjónustunni. 

Valgeir segir þetta því miður geta gerst þegar farið sé úr einu kerfi í annað þó auðvitað sé það súrt á meðan á því stendur. Kerfið sem sé á innleið sé hins vegar fantagott að hans mati og Terra vinni nú að því að koma þjónustu við grenndargámana í jafnvægi á ný. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert