Tunnudreifing hafin í miðborginni

Tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang.
Tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Byrjað er að dreifa nýjum tunnum fyrir sorphirðu í miðborg Reykjavíkur. Tunnum er úthlutað samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að dreifingin hefjist í dag næst Alþingi, eftir það verður farið í Stræti, Stíga, Götur og Vegi. Áætlað er að dreifing í miðborginni taki um tvær vikur.

Búast má við að loka þurfi stökum götum þar sem þrengsli eru mikil meðan á tunnuskiptum stendur.

Þá fá Hlíðar næst nýjar tunnur í júlí og ágúst, Laugardalur í ágúst og Háaleiti-Bústaðir í september.

Útskiptunum ljúki innan eins dags

Í tilkynningunni segir að meginmarkmiðið sé að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Tunnum fjölgar þar sem ekki voru endurvinnsluílát fyrir. Að lágmarki er hægt að hafa tvær tvískiptar tunnur í sérbýli með þremur eða færri íbúum.

Þá fá öll heimili jafnframt körfu og bréfpoka undir matarleifar sem dreift er samhliða tunnuskiptunum.

Nokkrir vinnuflokkar koma að verkinu. Tveir flokkar dreifa samhliða nýjum tunnum, körfum og bréfpokum. Því næst eru gömlu tunnurnar teknar til baka og síðast kemur teymi sem merkir eldri tunnur með nýjum samræmdum flokkunarmerkingum.

Miðað er við að útskiptunum ljúki innan eins dags fyrir hvert heimili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert