Biskup ráðinn af undirmanni sínum

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Biskupsstofu réð yfirmann sinn, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur biskup, hinn 1. júlí 2022, til að gegna embætti biskups tímabundið frá þeim tíma til og með 31. október 2024, eða í 28 mánuði.

Þetta kemur fram í ráðningarsamningi sem undirritaður er af Ragnhildi Ásgeirsdóttur framkvæmdastjóra Biskupsstofu og sr. Agnesi M. Sigurðardóttur biskup og Morgunblaðið hefur undir höndum.

Umboð biskups dregið í efa

Að því er Morgunblaðinu er tjáð er afar óvenjulegt, ef ekki einsdæmi, að undirmaður ráði yfirmann sinn til starfa eins og gert var í þessu tilviki. Jafnframt er lögmæti samningsins dregið í efa, eins og reyndar umboð biskups til að gegna starfinu yfirleitt. Það hefur t.a.m. Auður Björg Jónsdóttir lögmaður vefengt í fyrri umfjöllun blaðsins, en hún telur að biskup hafi ekki formlegt hæfi eða umboð til ákvarðana fyrir hönd kirkjunnar um málefni sr. Gunnars Sigurjónssonar, sem gegndi stöðu sóknarprests í Digraneskirkju, en hún gætir hagsmuna hans í málinu.

Kemur forseta kirkjuþings mjög á óvart

„Ég frétti af tilvist þessa samnings í síðustu viku, ég hafði ekki hugmynd um hann áður. Mér finnst það mjög undarlegt að undirmaður geti gert ráðningarsamning við yfirmann sinn. Við vorum aldrei látin vita af þessu, hvorki forsætisnefnd kirkjuþings né kirkjuþingið sjálft. Þetta kom mér mjög á óvart og er mjög sérstakt,“ segir Drífa Hjartardóttir í samtali við Morgunblaðið, spurð um hvort henni sé kunnugt um ráðningarsamninginn.

Situr sem fastast

Forseti Íslands skipaði sr. Agnesi biskup frá og með 1. júlí 2012 til fimm ára og var skipunartíminn síðan framlengdur um önnur fimm ár 1. júlí 2017. Með réttu hefði skipunartími biskups átt að renna út 1. júlí í fyrra, en af því varð ekki og ákvað forsætisnefnd kirkjuþings að ráðningartími biskups framlengdist um eitt ár og rynni þar af leiðandi út 1. júlí sl. Það var og skilningur forsætisnefndarinnar að ráðningartími biskups rynni út á þeim tíma á grundvelli þeirrar eins árs framlengingar á starfstíma hans sem gerð var, en síðan hefur ekkert gerst í málinu og biskup situr sem fastast.

Ekki náðist í biskup við vinnslu fréttarinnar í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka