Fylla aðalvöll Þróttar af manngæsku

Isaac segist orðlaus yfir öllum þeim stuðning sem hann hefur …
Isaac segist orðlaus yfir öllum þeim stuðning sem hann hefur fengið og fundið fyrir úr samfélaginu. Ljósmynd/Bolli Már Bjarnason

„Ég kem því ekki í orð hversu þakklátur ég er fyrir allan þann stuðning og alla þá hjálp sem ég hef fengið frá fólkinu í kringum mig,“ segir Isaac Kwateng, vallarstjóri hjá Þrótti. Félagið hvetur fólk til þess að mæta á aðalvöll félagsins á morgun og sýna stuðning í verki. „Nú er kominn tími til að fylla heilan fótboltavöll af rauðklæddum Þrótturum og manngæsku.“

Isaac hefur búið á Íslandi frá því árið 2017 þegar hann kom hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd. Síðan þá hefur hann verið í endalausri baráttu við kerfið en frá því árið 2019 hefur hann árlega fengið símtal þar sem honum er tilkynnt að nú eigi að senda hann úr landi. 

Lögreglan vinnur áfram að frávísun

Í síðustu viku greindi Morgunblaðið frá gagnrýni knattspyrnufélags Þróttar á vinnubrögð stjórnvalda í ákvörðunum útlendingamála. Vísa átti Isaac úr landi innan 30 daga þar sem úrskurðarnefnd útlendingamála neitaði honum um endurupptöku á umsókn sinni um alþjóðlega vernd.

Félagið sótti um endurnýjun atvinnu- og dvalarleyfis í byrjun árs en fengu engin svör fyrr en í síðustu viku. Þá fengust þær upplýsingar að búið væri að framlengja tímabundið bæði dvalar- og atvinnuleyfinu. María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, sagði lögregluna þrátt fyrir það hafa heimild til þess að halda áfram að vinna að frávísuninni, samkvæmt svörum við fyrirspurnum hennar til lögreglunnar.

Ég er bara mennskur

Isaac segist, í samtali við mbl.is, vera orðinn þreyttur á óvissunni sem baráttunni fylgir og hyggst hann því freista þess að leggja inn umsókn um ríkisborgararétt til Alþingis.

Til þess þarf hann þó að ná tilteknu íslenskuprófi, en vegna stöðugra hótana síðastliðin ár um að nú eigi að senda hann úr landi, hefur hann lagt litla áherslu á að læra tungumálið, enda í stöðugri baráttu um að fá að vera áfram á landinu. 

„Núna verð ég að einbeita mér að því að læra íslenskuna, reyna að gleyma því sem er yfirvofandi. Þó það sé ekki auðvelt, ég er bara mennskur,“ segir Isaac. 

Fylla fótboltavöllinn af manngæsku 

Hann hefur þó fengið gríðarlegan stuðning úr samfélagi Þróttara. Má þar nefna að Aldís Guðbrandsdóttir, kennari í Langholtsskóla og Þróttari, hefur boðist til þess að aðstoða hann við að ná tökum á tungumálinu og koma honum í gegnum prófið. 

Segja má að Þróttarar standi sannarlega undir nafni, enda mikill dugur í félaginu og allir að vilja gerðir að aðstoða Isaac, en annað kvöld verður blásið til myndatöku honum til stuðnings, á aðalvelli Þróttar, klukkan 20.  

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að félagið hafi auðgast mikið á veru hans.

„Okkur þætti vænt um að sjá nágranna okkar úr Langholts- og Laugarneshverfi sýna lit með því að mæta, helst í rauðu og styðja okkar mann. Nú er kominn tími til að fylla heilan fótboltavöll af rauðklæddum Þrótturum og manngæsku. Sýnum honum í verki að hann skipti máli og að okkur sé ekki sama.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert