Myndskeið: Tengist náttúrunni í gegnum augu drónans

Svanur Gabriele Monaco, 18 ára nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, sinnir ansi óvenjulegu hlutastarfi samhliða námi. Svanur sló í gegn á samfélagsmiðlum eftir að hann hóf að birta drónamyndskeið af eldgosinu 2021 og hefur í dag unnið efni fyrir m.a. Vogue, Eurovision og True North.

Hann segir fylgjendahópinn á Instagram strax hafa stækkað þegar hann hóf að birta myndir af gosinu í Geldingadölum árið 2021. Hann hafi áður verið með um 4.000 fylgjendur en í dag eru þeir orðnir rúmlega 36.000. 

Ekki þreyttur á eldgosum

Svanur kveðst síður en svo þreyttur á eldgosum, en hann hefur þegar farið fjórum sinnum að gosinu við Litla-Hrút og segir ekki ósennilegt að hann fari aftur. Síðasta skipti sem hann fór hafi þó sérstaklega staðið upp úr þar sem hann hafi komist nær gígnum en áður. Hann segir einnig sérstaklega skemmtilegt að hafa hitt annað drónaáhugafólk og suma fylgjendur sína á Instagram. 

Myndskeiðið sem fylgir fréttinni er úr síðustu ferð Svans að gosstöðvunum og má þar sjá sjónarhorn drónans þar Svanur flýgur honum ofan í gíginn.

Getur flogið ofan í gíginn án þess að bráðna

Svanur kveðst hafa verið nýlega búin að skipta yfir í svokallaðan FPV dróna, þegar hóf að gjósa í Geldingardölum. FPV stend­ur fyr­ir first-per­son view eða fyrstu per­sónu sjón­ar­horn. Meðfylgj­andi drón­an­um eru gler­augu sem dróna­flugmaður­inn set­ur á sig og get­ur séð „með aug­um drón­ans.“ Svanur átti fyrir safn DJI-dróna, en seldi þá alla til að kaupa sér FPV dróna. 

„Þeir eru miklu léttari og sneggri. Svo bráðna þeir ekki þar sem þeir eru gerðir úr fiberglass [trefja-gleri] en ekki plasti, þannig ég get flogið ofan í gíginn og svo aftur upp án þess að hann bráðni,“ segir Svanur.

Svanur Gabriele áhugamaður um dróna- og ljósmyndun.
Svanur Gabriele áhugamaður um dróna- og ljósmyndun. Ljósmynd/Arnúlfur Hákonarson

Fyrst og fremst ástríða

Svanur segir að tækifærin sem drónaljósmyndunin hefur fært honum hafa gengið fram úr björtustu vonum, enda sé hann aðeins 19 ára gamall og tiltölulega nýr í bransanum. „Ég er alltaf að fá stærri og skemmtilegri verkefni og að kynnast nýju fólki,“ segir Svanur en hann hefur fengið mikið af verkefnum í gegn um Instagram-reikning sinn, sem hann segir í raun virka eins og ferilskrá.

Hann segir drónaljósmyndun þó fyrst og fremst vera ástríðu sem hann fá aldrei nóg af. Hann kveðst ávallt hafa haft áhuga á ljósmyndun með hefðbundinni myndavél áður en hann kynntist drónum. Hann segir FPV drónann sérstaklega hafa heillað sig þar sem gleraugun geri honum kleift að sjá myndefnið með „eigin augum“ frá sjónarhornum sem mannfólk hafi venjulega ekki aðgengi að.

„En fyrst þegar maður prufar þetta verður maður alveg sjóveikur,“ bætir Svanur við.

Eins og að spila tölvuleik

Aðspurður hvort hann hafi verið mikill útivistarmaður fyrir kynnin af drónanum, svarar Svanur neitandi. Hann segir tæknina í raun hafa myndað tengingu á milli hans og náttúrunnar. Að nota drónann í íslenskri náttúru sé eins og að spila tölvuleik á meðan maður nýtur útivistarinnar. 

 „Nema þú getur ekki ýtt á restart-takkann ef þú hrapar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert