Pétur Georg Markan biskupsritari segir í samtali við mbl.is að umboð biskups sé skýrt.
„Umboðið kemur með vígslunni þegar þjóðin í Þjóðkirkjunni er búin að kjósa sér biskup. Það er hin guðfræðilega nálgun á umboði biskups. Það er ekki búið að kjósa annan biskup og þar til að það er gert er umboð biskups ótvírætt.“
Biskup Íslands hefur nú þegar tilkynnt um starfslok á næsta ári og yfirkjörstjórn Þjóðkirkjunnar hefur tilkynnt um kosningu biskups næsta vor. Gert er ráð fyrir biskupsskiptum síðla næsta sumars.
Pétur segist ekki geta tjáð sig um einstaka samninga sem gerðir eru við starfsfólk. Hann segir þó að eftir aðskilnað við ríkið hafi kerfisbundið verið farið í ráðningarsamningagerð þegar tími hefur verið kominn á starfsmenn samkvæmt vinnureglu Þjóðkirkjunnar.
„Það á við í þessu tilfelli eins og við alla aðra. Þetta er bara ráðningarsamningur sem verður að vera til grundvallar svo hægt sé að borga fólki laun. Þetta eru hlutir sem við höfum verið að gera mörgum sinnum í mánuði með allt starfsfólkið okkar frá því að þessi fasi hófst og það hefur ekki verið vinnuregla hér að upplýsa forseta kirkjuþings um slíkt.
Þarna er um að ræða mjög einfaldan ráðningarsamning sem við gerum við okkar starfsfólk sem er algjörlega eftir rútínu og reglu og samningurinn sem um ræðir gildir til þess tíma sem Agnes átti eftir þar til hún myndi láta af störfum.“
Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, ákvað að framlengja ráðningartíma biskups Íslands, Sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, um eitt ár frá 1. júlí 2022 þegar skipunartími hennar var liðin en forseti Íslands skipaði Agnesi í embætti til fimm ára frá 1. júlí 2012 og aftur til fimm ára í kjölfarið til ársins 2022.
Þjóðkirkjan gerði ráðningarsamning til 28 mánaða við Sr. Agnesi sama dag og forseti kirkjuþings ákvað að framlengja ráðningartímann. Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Biskupsstofu, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Þjóðkirkunnar en hún er undirmaður biskups.
Þjóðkirkjan setti sér starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa sem tóku gildi 1. janúar 2022 í kjölfar breytinga á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Starfsreglurnar kveða á um að kjörtímabil biskups skuli vera sex ár í senn.
Drífa segir að til hafi staðið að bera upp mál á kirkjuþingi síðasta haust sem varðaði umboð biskups en ekkert hafi orðið af því eftir að lögfræðiálit barst frá lögfræðingi Agnesar um að kjörtímabil hennar hefði endurnýjast 1. júlí 2022 og skuli telja til næstu sex ára líkt og starfsreglurnar gefa til kynna.
Nánar er rætt við Pétur Georg Markan biskupsritara í Morgunblaðinu á morgun.