Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur ekki vitneskju um Íslendinga á grísku eyjunum Ródos og Korfú þar sem skógareldar geisa nú.
Þetta segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi hjá utanríkisráðuneytinu, í samtali við mbl.is.
Þá hefur borgaraþjónustan ekki heldur heyrt frá Íslendingum á Sikiley en skógareldar brutust út á Sikiley í nótt.
„Við fylgjumst auðvitað grannt með og hvetjum fólk, hér eftir sem hingað til, að láta fólk heima vita af sér ef það er allt í lagi með það, en ef það þarf á aðstoð að halda þá ekki hika við að hafa samband við borgaraþjónustuna,“ segir Sveinn.
Hann hvetur Íslendinga á þessum svæðum til að fara eftir tilmælum yfirvalda og fylgjast vel með fréttum.